Enski boltinn

Klár­lega búið að van­meta Man. City

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og félagar í Manchester City ætla sér eflaust að endurheimta Englandsmeistaratitilinn. Arnar Gunnlaugsson segir fólk búið að vanmeta City í sumar.
Erling Haaland og félagar í Manchester City ætla sér eflaust að endurheimta Englandsmeistaratitilinn. Arnar Gunnlaugsson segir fólk búið að vanmeta City í sumar. Samsett/Getty/Sýn Sport

Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson segir alveg ljóst að fólk hafi vanmetið Manchester City í umræðum um það hverjir séu líklegastir til að landa Englandsmeistaratitlinum í fótbolta næsta vor. Það geti þó aftur skipt sköpum hve erfið meiðsli Rodri hafi glímt við.

Eftir fjóra Englandsmeistaratitla í röð urðu City-menn að horfa á titilinn fara til Liverpool á síðustu leiktíð og virðist fólk almenn telja Liverpool og svo Arsenal eða jafnvel Chelsea líklegast til að vinna deildina í vetur. City hóf hins vegar leiktíðina á 4-0 útisigri gegn Wolves og er því á toppnum eftir fyrstu umferð.

Í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport spurði Kjartan Atli Kjartansson hvort að City-liðið hefði verið vanmetið í umræðunni og var Arnar fljótur til svars:

„Já, klárlega. Þeir áttu ömurlegt tímabil í fyrra en enduðu í 3. sæti, reyndar langt á eftir Liverpool. En þeir virðast hægt og bítandi búnir að ná vopnum sínum aftur. Þeir byrjuðu að kaupa í janúar og eru búnir að eyða mjög miklu í janúar- og sumarglugganum,“ sagði Arnar.

Klippa: Sunnudagsmessan - Er verið að vanmeta City?

„Þeir virðast búnir að breyta mjög mikið aftur í leikstíl sem að er aðeins pragmatískari en hjá þeim í fyrra, sem þeir kynntu til leiks í sumar. Leikurinn gegn Wolves var virkilega vel upp settur hjá Guardiola. Þeir voru með kerfi sem kom í veg fyrir þessi „transitions“ [þegar lið missir boltann og mótherjinn getur sótt hratt] sem Liverpool fékk á sig. Þeir stýrðu leiknum mjög vel, með og án bolta, og það virðist ákveðið hungur komið aftur í liðið,“ sagði Arnar en minnti þó á að Rodri væri frá keppni vegna meiðsla, eftir að hafa einnig misst af nær öllu síðasta tímabili vegna krossbandsslita.

„Þessar breytur sem gera að verkum að þetta lið vinnur en ekki hitt eru oftast meiðsli og leikjaálag. Rodri er því miður ekki enn orðinn heill og það gæti aftur skipt sköpum. Sem dæmi þá er Rodri fyrir City eins og Salah og Van Dijk fyrir Liverpool… Hvernig væri Liverpool án þeirra? Auðvitað áfram frábært lið en væri það meistaralið? Það er svo skemmtilegt að það eru enn ein og ein svona týpa sem eru það góðar að þeir geta haldið uppi heilu stórliði og verið það sem skilur á milli feigs og ófeigs,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×