Innlent

Heim­sótti heimaslóðirnar 52 árum eftir nauðlendinguna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Greg Fletcher flugmaður (til hægri) ásamt Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og Pálma Frey Randverssyni framkvæmdastjóra Kadeco. 
Greg Fletcher flugmaður (til hægri) ásamt Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og Pálma Frey Randverssyni framkvæmdastjóra Kadeco.  Aðsend

Flugmaðurinn Greg Fletcher, sem nauðlenti Douglas Dakota-flugvél á Sólheimasandi árið 1973 og bjargaði þannig lífi allra um borð, heimsótti í gær gamlar heimaslóðir á Ásbrú í Reykjanesbæ. Með honum í för var Halla Tómasdóttir forseti Íslands. 

Fletcher var búsettur á varnarsvæði bandaríska hersins, nú Ásbrú, árið sem hann dvaldi á Íslandi. Fletcher hefur undanfarna daga verið í heimsókn um landið í þeim tilgangi að vitja flugvélarinnar sem hann nauðlenti á Sólheimasandi á ný. Frá heimsókninni greinir Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, í fréttatilkynningu. 

Flugvélin hefur um árabil verið fjölfarinn ferðamannastaður. Morgunblaðið fjallaði um heimsókn Fletchers að flakinu. 

Flak Varnarliðsvélarinnar á Sólheimasandi sumarið 2016.Sýn

Meðan Fletcher varði hann bróðurparti Íslandsdvalarinnar á áttunda áratugnum á herstöðinni. Í heimsókn sinni að Ásbrú í gær var hann kynntur fyrir þróunaráætlun og uppbyggingaráformum á Ásbrú. Þá sagði hann viðstöddum frá nauðlendingunni á Sólheimasandi og fleiri sögur af veru sinni á Íslandi.

„Það var bæði dýrmætt og lærdómsríkt að fá að ræða við hann og mikill meðbyr í okkar vinnu að heyra hversu mikla trú hann hefur á framtíðaruppbyggingu svæðisins og þeim tækifærum sem leynast hér í nálægð við flugvöllinn. Á sama tíma minnir heimsókn hans okkur á það hversu mikill menningararfur Ásbrúar er og mikilvægi þess að halda þeim arfi á lofti,“ er haft Pálma Frey Randverssyni, framkvæmdastjóra Kadeco. 


Tengdar fréttir

Gömlum Flugfélagsþristi bætt við á Sólheimasand

Gömul Douglas Dakota-flugvél, sem landeigendur Sólheimasands keyptu í vetur af Þristavinafélaginu, verður í kvöld flutt eftir þjóðvegum austur í sveitir frá Keflavíkurflugvelli. Fyrirhugað er að skrokknum verði komið fyrir á sandinum nálægt gamla flugvélarflakinu sem verið hefur einn helsti ferðamannastaður Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×