Körfubolti

NBA vill koma deild í Evrópu á koppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barcelona og Real Madrid munu að öllum líkindum spila í nýrri körfuboltadeild í Evrópu sem NBA byrja með.
Barcelona og Real Madrid munu að öllum líkindum spila í nýrri körfuboltadeild í Evrópu sem NBA byrja með. epa/Enric Fontcuberta

Í október 2027 stefnir NBA að því að hleypa af stokkunum nýrri körfuboltadeild í Evrópu.

NBA og Fiba hafa unnið saman að því að stofnsetja nýja körfuboltadeild í Evrópu. Miðað við orð Georges Aivagolozu, framkvæmdastjóra NBA í Evrópu, á ráðstefnu í Mílanó verður deildin skipuð sextán liðum.

Tólf þeirra munu eiga fast sæti í deildinni en hin fjögur liðin geta unnið sér þátttökurétt í henni með því að vinna Meistaradeild Evrópu eða með góðum árangri heima fyrir.

Aivagolozu sagði að stefnt væri að því að lið frá Englandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi, Grikklandi og Tyrklandi yrðu í nýju deildinni. Meðal félaga sem gætu tekið þátt eru Real Madrid, Barcelona og Fenerbahce.

Enn hefur ekkert verið formlega ákveðið með nýju deildina en viðræður við félög, fjárfesta og aðra hlutaðeigandi standa yfir.

Samkvæmt Aivagolozu hefur einnig verið rætt um að lið úr NBA og frá Evrópu muni mætast í einhvers konar keppni, ekki ósvipaðri og HM félagsliða í fótbolta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×