Skoðun

Þor­gerður í sömu vörn og varð­stjórinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Það kom því miður lítið á óvart á Alþingi í gær þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, gerði lítið annað en að tala um hvað stjórnarandstaðan væri ómöguleg – enn eina ferðina. Að þessu sinni var þetta þó sérstaklega áhugavert því umræðan snerist um hana sjálfa og hvernig henni misfórst að koma í veg fyrir tolla á íslenskan iðnað.

Þrátt fyrir að hafa fengið hrós frá formanni og þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins í ræðupúlti Alþingis fyrir hagsmunagæslu sína gegn Evrópusambandinu er varðar tolla á íslenskt járnblendi nýtir Þorgerður Katrín hvert tækifæri til að koma höggstað á Sjálfstæðisflokkinn sem kom ekkert að þessu máli - enda í stjórnarandstöðu.

Þorgerður er reynslubolti og gerir vel í að drepa málum á dreif í hvert sinn sem spjótin standa að henni, en það hlýtur að vera nýtt met að tala um áhorfendur í málinu sem gerendur þegar að hún sjálf skýtur fram hjá markinu og tekst ekki að verja íslenska hagsmuni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent á augljósar staðreyndir málsins eins og að þessir tollar hafa verið á leiðinni í ellefu mánuði. Svo það sem hefur nú verið staðfest að nýjasti Íslandsvinurinn, Ursula von der Leyen, barðist með kjafti og klóm gegn íslensku atvinnulífi og braut EES-samninginn - þrátt fyrir fagurt gal í hátíðarheimsókn sinni hingað til lands síðasta sumar.

„Ekki benda á mig,“ hermir Þorgerður Katrín upp eftir varðstjóranum fræga og tekur enga ábyrgð. Hún gerði sitt, gerði sitt, gerði sitt besta – en það bara dugði ekki og nú er það öðrum að kenna þrátt fyrir hrós fyrir sitt framlag og ákall Sjálfstæðisflokksins um samstöðu í málinu.

Orkumálaráðherrann Jóhann Páll Jóhannsson stökk svo Þorgerði til varnar á Facebook í gær og kallaði stjórnarandstöðuna landráðamenn. Allt til þess að slá ryki í augu almennings um hagsmunagæslu sem einfaldlega gekk ekki að þessu sinni.

Það óska allir Þorgerði og utanríkisþjónustunni velfarnaðar í áframhaldandi hagsmunagæslu því við þurfum á henni að halda sem þjóð - en svona málflutningur er lítilmannlegur og óþarfur.

Höfundur er aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og varaþingmaður.




Skoðun

Sjá meira


×