Sport

Þurfa að hlífa henni við fjöl­miðlum vegna heilaþreytu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Linn Svahn er öflug skíðagöngukona í fremstu röð. Hún er að koma aftur eftir slæmt höfuðhögg sem hafði mikil áhrif á hennar líf.
Linn Svahn er öflug skíðagöngukona í fremstu röð. Hún er að koma aftur eftir slæmt höfuðhögg sem hafði mikil áhrif á hennar líf. Getty/Federico Modica

Sænska skíðasambandið var tilneytt til að grípa til aðgerða vegna skíðastjörnunnar Linn Svahn og setur á mjög strangar fjölmiðlatakmarkanir fyrir endurkomu hennar í heimsbikarnum í Þrándheimi.

Aðgerðirnar koma fram í sérstakri tilkynningu til fjölmiðla á miðvikudag sem norska ríkisútvarpið fjallar um.

Svahn snýr aftur í heimsbikarinn í Granåsen um næstu helgi. Hún er að koma aftur eftir að hafa fengið heilahristing og orðið fyrir hálsmeiðslum þegar hún féll á sama stað fyrr á árinu þegar hún var að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í skíðagöngu.

Í sumar og haust hefur allt gengið í rétta átt hjá skíðastjörnunni, en að sögn sænska skíðasambandsins glímir Svahn enn við það sem lýst er sem „viðvarandi heilaþreytu“.

Þetta hefur valdið henni erfiðleikum.

„Undanfarið höfum við meðal annars í tengslum við blaðamannafundi tekið eftir bakslagi í formi heilaþreytu hjá Linn, sem í aðstæðum með miklum áreitum, hávaða og hreyfingu hefur haft áhrif á endurhæfingu hennar,“ segir Rickard Noberius, landsliðslæknir Svíþjóðar.

„Þess vegna höfum við tekið þá ákvörðun að hlífa Linn við aðstæðum sem geta haft neikvæð áhrif og að einbeita okkur að fullu að framkvæmd keppnanna,“ bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×