Innlent

Fleiri líf­eyris­þegar og leikskólaforeldrar sem þurfa jólaaðstoð

Lovísa Arnardóttir skrifar
Úthlutun hefst á morgun og stendur alla vikuna.
Úthlutun hefst á morgun og stendur alla vikuna. Aðsend og Vísir/Viktor Freyr

Úthlutun Matargjafa Akureyrar og nágrennis og NorðurHjálpar byrjar á morgun og stendur í viku. Sigrún Steinarsdóttir, framkvæmdastýra Matargjafar Akureyrar, segir fjölgun beiðna. Sorglegt sé að sjá fjölgun lífeyrisþega meðal þeirra sem þiggja aðstoð.

Úthlutunin hefst í hádeginu á morgun og fær hver einstaklingur sem fær úthlutað fimmtán mínútur. Úthlutun lýkur svo klukkan 18.30 en hefst aftur á þriðjudag.

„Við leggjum mikla áherslu á það að fólk hittist ekki þar sem að í mörgum tilvikum eru þetta þung skref. Þetta hefur alltaf verið þannig, það er sér móttökutími og sér úthlutunartími,“ segir Sigrún en aðeins er tekið á móti einum eða einni fjölskyldu í einu og er korter á milli hvers tíma. Hún segist eiga von á um 30 fjölskyldum eða einstaklingum á morgun og þannig verði það út vikuna.

Hún segir beiðnum hafa fjölgað frá því í fyrra. Það gangi vel að safna og ákveðin fyrirtæki standi alltaf með þeim þegar þau geti.

Fjallað var um það fyrir rúmri viku síðan að færri leituðu í ár eftir jólaaðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar í Reykjavík. Vísað var til þess að fækkað hefði í hópi þeirra sem leita til þeirra vegna, meðal annars, aðgerða stjórnvalda eins og ókeypis skólamáltíða.

Fleiri leikskólaforeldrar eftir kerfisbreytingu

Sigrún segir þetta ekki eiga við á Akureyri og í nágrenni. Þvert á móti hafi hún séð barnafjölskyldum fjölga og sérstaklega foreldrum leikskólabarna.

„Það er frír leikskóli frá 8 til 14 en er dýrari frá 14-16 og svo eru dagar sem þarf að borga fyrir barnið. Það eru 4.500 krónur dagurinn og þetta eru fimmtán dagar. Hlutfallslega er þetta orðið dýrara,“ segir hún og að þannig hafi foreldrum leikskólabarna fjölgað hjá þeim frá því að þessi breyting var gerð á leikskólakerfinu á Akureyri. Um er að ræða svipaða breytingu og var gerð á kerfinu í Kópavogi og stendur til að gera í Reykjavík

„Það er að koma inn meira af yngra fólki sem er bæði í vinnu, með börn á leikskóla, og þau ná ekki endum saman.“

„Við erum að upplifa fjölgun og meiri neyð,“ segir hún en hjá Matargjöfum getur fólk fengið mat, bónuskort auk þess að geta fengið jólagjafir, föt og ýmislegt annað.

Hún segir fólkið sem til þeirra leitar fjölbreytt. Það séu Íslendingar, fólk af erlendum uppruna, ungt fólk og einnig eldra fólk. Þeim hafi til dæmis fjölgað í ár sem séu lífeyrisþegar.

Sigrún segir miður að staða fólk sé svo slæm. Vísir/Viktor Freyr

Sorglegt að sjá fleiri lífeyrisþegar

„Þetta er öll flóran en það er að bætast dálítið af eldra fólki, einstæðingum. Það er aukning þar af þeim sem eru á ellilífeyri. Ég er með tvær konur sem við förum með til. Þær eru báðar 85 ára. Þetta er nýtt að þetta er aukning í þessum flokki. Mér finnst þetta mjög sorglegt.“

Hún segir barnafjölskyldur leita til þeirra eftir jólagjöfum og séu í samstarfi við Norðurhjálp um klæðnað og gjafir. Þá hafi hárgreiðslustofur á Akureyri boðið aðstoð og því hafi þau getað boðið börnum að fara í jólaklippingu í þeirra boði.

„Við erum í öllu hérna.“

Sigrún er að ganga inn í sín tólftu jól hjá Matargjöfum Akureyrar.

„Ég væri ekki að fara inn í tólftu jólin ef þetta væri mér ekki mjög mikils virði. Ég er búin að vera með þetta í ellefu ár þannig þetta gefur mér mikið, að geta hjálpað fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×