Innlent

Ný könnun Maskínu: „Væri al­veg ný staða í ís­lenskum stjórn­málum“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ólafur Þ. Harðarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði segir umhugsunarvert að Flokkur fólksins nái ekki fimm prósenta þröskuldinum. Færu kosningar í samræmi við nýja Maskínu-könnun dyttu 17 prósent atkvæða niður dauð.
Ólafur Þ. Harðarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði segir umhugsunarvert að Flokkur fólksins nái ekki fimm prósenta þröskuldinum. Færu kosningar í samræmi við nýja Maskínu-könnun dyttu 17 prósent atkvæða niður dauð. Vísir/Sigurjón

Fylgi Miðflokksins heldur áfram að aukast og eykst um tæp tvö prósentustig milli mánaða, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Flokkurinn mælist nú með 19,2 prósent. 

„Þetta er þriðja könnun í röð sem mælir Miðflokkinn stærri en Sjálfstæðisflokkinn og í þessari könnun er munurinn á flokkunum fjögur prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að festast að undanförnu í 15 til 16 prósentum,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði.

Fylgi allra annarra flokka dalar lítillega eða stendur í stað en Flokkur fólksins mælist í fyrsta sinn undir fimm prósenta þröskuldinum, með 4,8 prósent. 

Samfylkingin mælist enn með tæplega 29 prósenta fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn með tæp fimmtán, Viðreisn í kringum þrettán prósent og Framsóknarflokkurinn með 6,6 prósent. Aðrir flokkar mælast með undir fimm prósenta fylgi. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er nú 47 prósent.

„Ef Flokkur fólksins dytti alveg út af þingi þá myndu þessar niðurstöður þýða að 17 prósent atkvæða yrðu dauð því tólf prósent atkvæða í könnuninni fara til Pírata, Vinstri grænna og Sósíalista, sem heldur fá engan þingmann ef tölurnar eru teknar bókstaflega,“ segir Ólafur.

„Sautján prósent yrði það mesta sem nokkurn tíma hefur verið á Íslandi, það hefur aldrei verið meira en tólf prósent atkvæða, sem fallið hafa dauð og það var 2013. Þetta væri alveg ný staða í íslenskum stjórnmálum og mikið umhugsunarefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×