Sport

Fjöl­skylda skíðakappans fær ekki svör fyrr en í mars

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sivert Guttorm Bakken ætlaði sér á Vetrarólympíuleikana í febrúar en fannst látinn á hótelherbergi sínu í síðustu viku. 
Sivert Guttorm Bakken ætlaði sér á Vetrarólympíuleikana í febrúar en fannst látinn á hótelherbergi sínu í síðustu viku.  Getty/Kevin Voigt

Niðurstöður úr krufningu og rannsókn á andláti norska skíðaskotfimikappans Sivert Guttorm Bakken verða ekki gerðar opinberar fyrr en í byrjun marsmánaðar.

Landsliðsmaðurinn fannst látinn inni á hótelherbergi að morgni Þorláksmessu þegar hann var við æfingar fyrir Vetrarólympíuleikana sem fara fram í Ítalíu í febrúar.

Þegar Bakken lést var hann með súrefnisgrímu á andlitinu, sem á að líkja eftir andrúmslofti í mikilli hæð eins og skíðaskotfimikappar keppa í.

Norska afreksíþróttasambandið Olympiatoppen hefur mælt gegn notkun slíkra gríma en óvíst er þó hvort gríman hafi átt hlut í máli eða hvað olli andlátinu.

Fyrstu niðurstöður úr krufningu áttu að vera gerðar opinberar í þessari viku en frestur hefur nú verið gefinn fram til 7. mars 2026.

„Við vonuðum að fjölskyldan myndi fá einhver svör en þau þurfa að bíða í einhverja mánuði“ sagði lögfræðingurinn Bernt Heiberg við NRK.

„Við höfum aðgang að rannsóknargögnum lögreglunnar en krufningin mun skera úr um hvað olli andlátinu, og við höfum engan aðgang að þeim niðurstöðum“ sagði lögfræðingurinn einnig.

Lík Sivert Guttorm Bakken verður flutt til Noregs á næstu dögum svo fjölskyldan geti jarðsett hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×