Innlent

Kallar eftir upp­lýsingum um kín­verska strætis­vagna á Ís­landi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún vill vita hvort og þá hvernig íslensk stjórnvöld hafa brugðist við vegna strætisvagna frá kínverskum framleiðanda í eigu og umsjón hins opinbera hér á landi.
Þórdís Kolbrún vill vita hvort og þá hvernig íslensk stjórnvöld hafa brugðist við vegna strætisvagna frá kínverskum framleiðanda í eigu og umsjón hins opinbera hér á landi. Vísir/Strætó

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallar eftir svörum frá innviðaráðherra um strætisvagna á Íslandi frá kínverska framleiðandanum Yutong. Fyrirspurnina leggur Þórdís fyrir ráðherrann á Alþingi, í framhaldi af fréttum frá Norðurlöndum þar sem bent hefur verið á möguleika þess að framleiðandinn kínverski gæti haft áhrif á virkni vagnanna með rafrænum hætti. Þórdís vill vita hversu margir vagnar frá framleiðendanum eru í umferð hjá hinu opinbera og hvort stjórnvöld hér á landi hafi með einhverjum hætti brugðist við.

Í haust bárust fréttir frá Noregi um að almannasamgöngufyrirtæki þar í landi hafi varað yfirvöld við því að Kínverjar geti fjarstýrt rafmagnsvögnum sem eru notaðir á götum höfuðborgarinnar Osló. Strætó á höfuðborgarsvæðinu notar sömu kínversku vagnana hér á Íslandi.

Um það skapaðist mikil umræða í Noregi þegar greint var frá niðurstöðum leynilegrar rannsóknar sem gerð var á öryggi strætisvagna síðasta sumar. Þegar tveir vagnar, einn framleiddur í Evrópu en hinn í Kína, voru teknir í sundur kom í ljós að framleiðandi kínverska vagnsins gat tekið yfir stjórn vagnsins úr fjarska, þar á meðal stjórn á rafhlöðu og rafmagnsstýribúnaði. Í framhaldinu brást Jon-Ivar Nygård, samgönguráðherra Noregs við, og sagðist myndu láta vinna ítarlegt áhættumat á notkun almenningsvagna frá löndum sem Noregur á ekki í öryggissamstarfi við. Þá hafa Danir jafnframt gert ráðstafanir vegna sambærilegra vagna í Danmörku.

Vísir greindi frá því fyrr í vetur að Strætó á höfuðborgarsvæðinu rekur fimmtán Yutong-rafmagnsvagna. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagðist þá hafa átt símafund með norskum og dönskum kollegum um málið, stöðuna og næstu skref. Vagnarnir sem séu í notkun hér á landi séu frá 2018 og 2019. „Þær upplýsingar sem við höfum er að það er mjög lítið annað hægt að gera en að stoppa þá ef eitthvað slíkt kemur upp. Það á á engan hátt að vera hægt að stýra þeim samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum,“ sagði Jóhannes.

Í fyrirspurninni spyr Þórdís Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra, sem Inga Sæland reyndar leysir af um þessar mundir, annars vegar um það hversu margir strætisvagnar frá Yutong eru í eigu eða notkun hjá opinberum aðilum hér á landi, til dæmis hjá Strætó bs.

Í öðru lagi spyr Þórdís hvort hérlend stjórnvöld hafi „farið að dæmi stjórnvalda í nágrannaríkjum og brugðist við fregnum af þeim eiginleika nefndra strætisvagna að framleiðandi geti haft áhrif á virkni einstakra vagna með rafrænum hætti?“ Og ef svo er vill Þórdís jafnframt vita hvernig stjórnvöld hafa brugðist við, og ef ekki, þá hvers vegna ekki hafi verið brugðist við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×