Sport

„Mjög svekkt og sár“ út í Skíða­sam­band Ís­lands

Aron Guðmundsson skrifar
Hólmfríður Dóra segir farir sínar ekki sléttar í samtali við íþróttadeild Sýnar
Hólmfríður Dóra segir farir sínar ekki sléttar í samtali við íþróttadeild Sýnar Vísir/Bjarni

Skíðakonan Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir er mjög sár og svekkt út í Skíðasamband Íslands fyrir að treysta henni ekki til þáttöku á komandi Vetrarólympíuleikum. Sambandið segir ákvörðunina tekna með hennar langtíma hagsmuni til hliðsjónar. Hólmfríður segist sjálf vera best til þess fallin að meta þá. 

„Ég fékk þessa sím­hringingu í gær þar sem mér var tjáð að ég hefði ekki verið valin til þátt­töku á Vetrarólympíu­leikunum í Míla­no Cortina núna í febrúar. Þetta er auðvitað bara áfall fyrir mig og gífur­leg von­brigði,“ segir Hólm­fríður í sam­tali við Stefán Árna Páls­son, íþrótta­frétta­mann Sýnar. 

„Ég er náttúru­lega búin að vera undir­búa mig fyrir þessa leika í fjögur ár, sá alltaf fram á að vera fara en varð fyrir þessu óhappi, meiðslum, núna í desember sem setti strik í reikninginn.“

Klippa: Sár og svekkt út í Skíðasamband Íslands

Fylgdu ströngu plani

Það var fyrir rúmum einum og hálfum mánuði síðan sem Hólm­fríður varð fyrir því óláni að brjóta sköflungs­bein á æfingu og gekkst hún undir skurða­gerð skömmu síðar. Um var að ræða lítið brot í tibi­al plateau, efsta fleti sköflungsins.

Hólm­fríður var þá að æfa sig fyrir heims­bikar­mót í St.Mo­ritz í Sviss en eftir að­gerðina fór hún að huga að endur­hæfingu og hélt í vonina um að geta tekið þátt á Vetrarólympíu­leikunum.

„Ég fór í að­gerð úti í Sviss og var til­kynnt af að­gerðar­lækni þar að ég ætti enn góða mögu­leika á að keppa á leikunum ef endur­hæfingin gengi vel.“

Skíða­konan öfluga deildi bata­ferli sínu á sam­félags­miðlum og upp­lifði hún góðan bata dag frá degi og var laus við hækjur þann 6. janúar síðastliðinn.

„Við fylgdum ströngu og mjög hörðu endur­hæfingar­plani. Fylgdum því í þaula og endur­hæfingin hefur gengið vonum framar.“

Gífurleg vonbrigði

Í dag var hins vegar lands­liðs­hópur Ís­lands frá Skíða­sam­bandinu opin­beraður fyrir Vetrarólympíu­leikana og var þar nafn Hólm­fríðar ekki að finna. Í til­kynningu sam­bandsins var sagt frá því að mat sér­fræðinga væri á þá leið að ekki væri ráð­legt fyrir Hólm­fríði að keppa á leikunum.

„Þetta eru bara gífur­leg von­brigði fyrir mig. Fyrst og fremst er ég bara sár að fá ekki traustið frá Skíða­sam­bandi Ís­lands að láta reyna á þetta. Það eru enn tvær og hálf vika til stefnu fyrir keppni í risa­sviginu sem er mín aðal­grein. Ég hélt það væri mark­miðið, að leyfa mér að halda þessu ís­lenska sæti, leyfa mér að reyna. En það var ekki staðan. Þessi ákvörðun var tekin í gær. Ég er bara mjög svekkt og mjög sár.“

Hólm­fríði líður í dag mjög vel líkam­lega.

„Mér líður bara ótrú­lega vel. Ég er á sirka sjöundu viku núna, beinið er í raun gróið. Það er ekki full­gróið en það getur tekið ein­hvern tíma að full­gróa. Ég fyrst og fremst vildi bara fylgja planinu sem ég fékk frá að­gerðar­lækninum. Mér líður vel, ég var búin að vera mjög opinská með að ég treysti mér til þess að keppa í febrúar. Þetta er bara sárt.“

Sjálf best til þess fallin að meta eigin hagsmuni

Hún er ósammála skýringum Skíða­sam­bands Ís­lands á að velja hana ekki fyrir komandi Vetrarólympíu­leika en Hólm­fríður fékk þær út­skýringar að ákvörðunin væri tekin með hana langtíma hags­muni að leiðar­ljósi.

„Ég verð bara að vera ósammála því og segja að ég ein sé best til þess fallin að meta mína langtíma hags­muni. Ég er ekki sammála þessu en þetta er helsti rökstuðningurinn frá sam­bandinu.“

Í að­draganda valsins var Hólm­fríður send í læknis­skoðun á vegum skíða­sam­bandsins.

„Þann 15.janúar síðastliðin og kom bara nokkuð vel út úr henni. Ég er að vinna við þetta, að vera íþrótta­maður og sinna endur­hæfingu og kem því betur út heldur en meðal maðurinn en ég fór líka í mynd­greiningar sem komu nokkuð vel út og tek líka tvö styrktar­próf hjá sjúkraþjálfara.

Fer samt út til Ítalíu

Eins og staðan var þá sá ég bara fram á að fara á Vetrarólympíu­leikana og við værum að fara láta reyna á skíðaæfingarnar en það er bara leiðin­legt að það hafi ekki verið látið á það reyna.

Hólm­fríður ætlar sér hins vegar að halda út til Ítalíu í fyrra­málið þar sem leikarnir fara fram.

„Ég held mínu plani og þarf að taka ákvörðun varðandi næstu skref en ætla mér að vera á Ítalíu á meðan á leikunum stendur, fylgjast með ís­lenska hópnum og styðja þau. Ég óska þeim auðvitað öllum virki­lega góðs gengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×