Sport

Gerrard skoraði fimm á 113 mínútum

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, skoraði fimm mörk á aðeins 113 mínútum í leikjunum tveimur gegn velska liðinu TNS í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Liverpool vann leikina samanlagt 6-0 og mætir FBK Kaunas frá Litháen í næstu umferð. Steven Gerrard skoraði þrennu í fyrri leiknum þar af var hann kominn með tvö mörk eftir aðeins 21 mínútna leik. Í seinni leiknum byrjaði Gerrard á bekknum en kom inn á þegar 23 mínútur voru eftir. Á þeim tíma tókst fyrirliðanum að skora tvívegis og hefur því heldur betur stimplað sig aftur inn í Liverpool-liðið eftir það rót sem var á hans málum í sumar. Gerrard spilaði samtals í 113 mínútur í leikjunum tveimur og skoraði því mark á 22,6 mínútna fresti sem er frábær árangur hjá miðjumanni. Eina mark Liverpool sem var ekki skorað af fyrirliðanum var fyrsta markið í seinni leiknum en það skoraði Frakkinn Djibril Cisse. "Við vorum að hugsa um að hvíla Steven í leiknum en hann vildi endilega koma inná og nú er hann búinn að skora fimm mörk í tveimur leikjum," sagði Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool eftir annan 3-0 sigurinn í röð á TNS. "Þetta er gott fyrir hann sjálfan og einnig mjög gott fyrir okkur. Þetta er góð uppskera fyrir miðjumann og ég tel að hann eigi eftir að skora miklu fleiri mörk í vetur en á síðasta tímabili. Hann getur núna tekið meiri áhættu með að stinga sér fram á völlinn því hann hefur betri leikmenn í kingum sig í ár. Ég vissi alltaf að Steven væri okkur mikilvægur en ég hef þó engar áhyggjur af því að við þurfum að treysta á að hann skori fimm mörk í tveimur leikjum," bætti Benitez við á blaðamannafundi eftir leikinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×