Sport

Viktor Bjarki sá um HK

Það er óhætt að segja að þessi tvö lið sem áttust við í Kópavoginum í gær séu sannkölluð bikarlið. 1.deildarlið HK komst alla leið í undanúrslit í fyrra og sló bikarmeistarana í Keflavík úr leik í sextán liða úrslitum í ár. Fylkismenn unnu bikarinn 2001 og 2002 en leikur liðsins í sumar hefur verið ansi sveiflukenndur. Oftast hefur liðið þó spilað mjög vel á útivöllum en annað var uppi á teningnum í gær. HK-ingar fengu hættulegustu færi fyrri hálfleiksins, það besta á áttundu mínútu þegar Bjarni Þórður Halldórsson markvörður Fylkis varði frábærlega í horn frá Eyþóri Guðnasyni sem kominn var i dauðafæri. Undir blálok fyrri hálfleiks fór boltinn í höndina á Val Fannari Gíslasyni, varnarmanni Fylkis, innan vítateigs. Dómarinn Jóhannes Valgeirsson sá þó ekkert athugavert og flautaði til leikhlés skömmu síðar. HK-ingar hópuðust að Jóhannesi og létu óánægju sína í ljós. Fátt var um fína drætti í þessum leik og skemmtanagildið í minnsta lagi. HK saknaði Harðar Más Magnússonar og Rúriks Gíslasonar í þessum leik en þeir eru venjulega þeirra hættulegustu menn í sóknarleiknum. Fylkismönnum gekk brösulega að skapa sér færi gegn varnarsinnuðum HK-mönnum en á lokamínútunum gerðu þeir út um leikinn. Viktor Bjarki skoraði tvívegis, fyrst laglegt mark eftir sendingu Ragnars Sigurðssonar þar sem hann setti boltann í fallegum boga yfir Gunnleif og svo af löngu færi í viðbótartíma í autt markið en Gunnleifur var kominn framarlega á völlinn í þeirri veiku von að fá leikinn framlengdan."Það er erfitt að spila á móti svona liði sem liggur svona aftarlega. Þetta var bara ekta bikarslagur þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en undir lokin." sagði hetjan Viktor Bjarki Arnarsson sem verið hefur á skotskónum hjá Fylki. "Vonandi heldur maður áfram að skora, meðan það gengur vel hjá liðinu þá er gaman."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×