Solskjær með ManUtd í fyrsta leik?

Stuðningsmönnum Manchester United hlýnar nú um hjartarætur því einn vinsælasti leikmaður félagsins, Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, er við það að snúa aftur eftir meðsli sem hafa haldið honum utan vallar í tæp tvö ár. Ekki var búist við því Solskjær myndi byrja að leika aftur með aðalliðinu fyrr en í október. Eftir 6-1 sigurleik Man Utd gegn Antwerpen í gærkvöldi lýsti Sir Alex Fergson því yfir að stutt væri í endurkomuna og Norðmaðurinn yrði jafnvel tilbúinn í fyrsta leikinn í deildinni gegn Everton 13. ágúst. Solskjær sem er orðinn 32 ára hefur ekki leikið með Man Utd síðan hann meiddist á hné í Evrópuleik gegn Panathinaikos í september 2003. Þessi tíðindi þykja benda til þess að líkurnar á því að Michael Owen sé leið til Man Utd minnki all verulega eins og orðrómur hefur verið uppi um. Framtíð Owen hjá Real Madrid er í algerri óvissu eftir komu tveggja nýrra og dýrra sóknarmanna og hefur hann sjálfur viðurkennt að hafa átt í viðræðum við 3-4 ensk úrvalsdeldarfélög að undanförnu.