Skoðun

Letingjafrumvarpið

Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Þægindi eru mikils metin lífsgæði. Því er ekki að neita að það er þægilegt að kaupa bjórinn um leið og hamborgarana eða rauðvínið á sama stað og steikina. Ég man vel hvað þetta var hentugt þegar ég bjó í Bretlandi. En þó að áfengi í matvöruverslunum sé hentugt fyrir suma er það hættulegt fyrir aðra. Þeir sem glíma við áfengisvanda taka oft hvatvísislegar ákvarðanir með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir þá sjálfa og fjölskyldur þeirra. Vandi þeirra verður vissulega ekki leystur með boðum eða bönnum en það er dýru verði keypt að stilla freistingum upp fyrir framan þá í hvert sinn sem þeir kaupa í matinn. Þetta vita börn þeirra og aðrir aðstandendur.

Á Íslandi eru 49 vínbúðir með fjölbreyttu vöruúrvali og góðri þjónustu. Því er varla hægt að halda því fram að aðgengi að áfengi sé torvelt. Með samþykkt áfengisfrumvarpsins yrði meðal annars aukið á kvíða og öryggisleysi fjölmargra barna sem eiga foreldra með áfengisvanda. Til hvers? Til þess eins að auka þægindi þeirra sem finnst víndrykkja of fyrirhafnarsöm. Er það verðugt verkefni kjörinna fulltrúa okkar á Alþingi?




Skoðun

Sjá meira


×