Patrick Pedersen var áfram á skotskónum þegar Valsmenn tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins eftir 4-0 sigur á Fjarðabyggð í leik liðanna í sextán liða úrslitunum í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.
Kristinn Freyr Sigurðsson og Daði Bergsson skoruðu báðir í fyrri hálfleiknum en staðan var 2-0 í hálfleik. Patrick Pedersen lagði upp bæði mörkin en það kom að honum að skora í seinni hálfleik eftir óeigingjarnan undirbúning frá Kristni Frey Sigurðssyni
Patrick Pedersen skoraði þriðja markið eftir aðeins fimm mínútna leiks í seinni hálfleiknum. Pedersen hefur nú skorað í sex síðustu leikjum Valsliðsins samtals níu mörk en danski framherjin hefur alls skorað tíu mörk í deild og bikar á leiktíðinni.
Valsmenn voru ekki alveg hættir og varamaðurinn Haukur Ásberg Hilmarsson bætti við fjórða markinu í uppbótartíma.
Fjarðabyggð er í 4. sæti 1. deildar karla en Valsmenn eru í 4. sæti í Pepsi-deildinni.
Þetta var fimmti sigur Valsmenna í röð í deild (3) og bikar (2) en markatala liðsins í þessum fimm sigurleikjum á síðustu þremur vikum er fimmtán mörk í plús (16-1)
Upplýsingar um markaskorara í þessum leik eru fengnar af fótboltasíðunni fótbolti.net.
