Boeing 737 Max 8 og Max 9-vélarnar eru búnar nemum sem greina hvort flugmenn slysist til að hækka flugið óeðlilega hratt. Vélin grípur þá sjálf inn í og lækkar flugið en fyrrnefndur galli leiðir til þess að það sé gert með slíku offorsi að flugmennirnir eiga í mestu vandræðum með að rétta vélina af aftur.
Sjá einnig: Skýrt í handbókum hvernig bregðast skuli við bili mælar
Fram kom í leiðbeiningum sem Boeing sendi notendum Max-vélanna, til að mynda Icelandair eins og Vísir greindi frá í liðinni viku, að hin sjálfvirka lækkun geti því orsakað snarpa dýfu og jafnvel brotlendingu - meira að segja þegar flugmennirnir fara sjálfir með stjórn vélarinnar og búast ekki við því að sjálfstýring hennar grípi í taumana.
Þessi viðvörun er sögð hafa komið flatt upp á marga flugmenn sem flogið hafa nýjustu Max-vélunum. Flugöryggissérfræðingarnir sem rannsaka hrap fyrrnefndrar Lion Air-vélar segja að Boeing hafi þannig ekki tjáð flugfélögum, flugumferðarstjórnum eða flugfélögum að þessum eiginleika hafi verið bætt í Max-vélarnar. Því hafi fáir verið í stakk búnir til að takast á við hina mögulegu hættu sem af þessari sjálfvirku íhlutun gæti skapast.

Í fyrri útgáfum 737-vélanna er þó einnig að finna búnað sem grípur inn í þegar flugið hækkar of mikið. Ólíkt nýju Max 8 og 9 lækka hins vegar eldri vélarnar ekki flugið þegar slökkt er á öðrum eiginleikum sjálfstýringarinnar. Í handbókum með eldri vélunum má að sama skapi finna leiðbeiningar um hvernig eigi að bregðast við mögulegum vandamálum sem upp geta komið vegna þessarar íhlutunar og var flugmönnum gert að leggja þær á minnið. Kröfur um slíkan páfagaukalærdóm eru þó sagðar hvergi sjáanlegar í handbókum Max 8-vélanna.
Viðmælendur Wall Street Journal, eins og forseti flugmannasamtaka Southwest Airlines, eru æfir og segja óboðlegt að Boeing hafi gert lítið úr þessari viðbót nýju vélanna. Nú skipti öllu máli að sjá til þess að flugvélaframleiðandinn sitji ekki á fleiri, mikilvægum upplýsingum.
Í samtali við fréttastofu fyrir helgi sagði þjálfunarstjóri Icelandair að það væri þó óþarfi að óttast. Skýrar verklagsreglur séu til um vinnuferla komi bilun upp í búnaðinum sem um ræðir. Væri um alvarlega bilun að ræða væru flugmálayfirvöld þar að auki búin að kyrrsetja vélarnar um allan heim, en alls eru rúmlega 200 Boeing 737 Max 8 og 9-vélar í notkun.