Ætlunin hjá IKEA Group er að leggja ríkari áherslu á hvers kyns sjálfvirknivæðingu og sölu á netinu, heimsendingar og þjónustu sem „er í takti við breytingar innan smásölugeirans,“ eins og það er orðað á vef sænska ríkisútvarpsins.
Þar er þess getið að uppsagnirnar muni ná til um 650 starfsmanna í Svíþjóð, ekki síst í Malmö, Helsingborg og Älmhult. Hins vegar geri IKEA ráð fyrir því að í fyllingu tímans muni starfsmönnum samsteypunnar fjölga um 11.500 á heimsvísu - en hvenær og hvar sú fjölgun muni eiga sér stað fylgir þó ekki sögunni.
Fjölgun frekar en fækkun
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, segir að þessar skipulagsbreytingar muni ekki hafa nein áhrif hér á landi. Þrátt fyrir óneitanleg tengsl milli IKEA Group, sem rekur um 400 verslanir um allan heim, og fyrirtækisins á Íslandi séu þó um tvö aðskilin félög að ræða.Eins og fyrr segir er stefna IKEA Group að leggja aukna áherslu á netverslun í náinni framtíð, eitthvað sem Þórarinn segir að IKEA á Íslandi hafi boðið viðskiptavinum sínum upp á í rúmlega áratug. Því sé engin þörf á því að fara í samskonar skipulagsbreytingar hér á landi, með tilheyrandi uppsögnum.
Þvert á móti gerir Þórarinn frekar ráð fyrir því að fjölga starfsfólki á næstunni, fremur en að fækka því eins og IKEA Group hefur boðað.