Nýlega var haldið fimm daga námskeið fyrir lækna á Grímsborgum í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem megin áherslan var lögð á streitu, seiglu, svefn og líkamsklukkuna, álag og ósjálfráða taugakerfið og um meðvirkni svo eitthvað sé nefnt. Góður svefn er eitt af því sem læknar ráðleggja skjólstæðingum sínum og þetta er eitt af ráðunum.
„Virða svefninn, virða svefntímann, þetta er ekki einhver afgangsstærð, þar sem þykir flott að sofa lítið, það er mikill misskilningur. Þannig að virðum svefntímann og gefur okkur tíma til að sofa og búum til þær aðstæður í okkar lífi að við getum sofið,“ segir Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir og lýðheilsufræðingur og einn af fyrirlesurum á námskeiðinu.

En hvað eigum við að sofa mikið ?
„Meðalmaðurinn þarf sjö til átta tíma að nóttu til. Minna er ekki gott og meira er ekki gott heldur. Það eru margir sem átta sig ekki á því að það er ekki heldur gott að sofa of mikið, þannig að yfir níu tíma er ekki eðlilegt, þannig að sjö til átta fær vinninginn“, segir Erla og bætir við að henni finnist fólk oft kærulaust með svefninn.
„Já, það finnst mér oft á tíðum. Þetta hefur kannski ekki fengið alveg það mikilvægi, sem mér finnst svefninn eiga skilið. Þannig að mig langar svo að fólk átti sig á því hvað það eru ótrúlega merkilegir hlutir að gerst í líkama okkar og heilanum þegar við sofum, sem er bara mjög nauðsynlegur hluti af góðri heilsu.“
