Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í kostnað ríkissjóðs af kórónuveirufaraldrinum og möglega nýrri bylgju hans í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Á vogarskálunum nú eru annars vegar hertar aðgerðir á landamærunum eða hertar sóttvarnir innanlands," sagði Jón Þór. Kostnaðurinn við aðgerðir eða aðgerðarleysi á líf fólks og heilsu væri þekktur en hann vildi vita hver kosnaðurinn væri í peningum.
Fjármálaráðherra vísaði í svari sínu til tveggja efnahagslegra úttekta á sóttvarnamálum. Fyrri skýrslan þar að lútandi hafi komið út síðast liðið haust og sú síðari upp úr áramótum. Þar væru færð fyrir því rök að það væri óumdeilanlega skynsamlegt fyrir efnahagslífið að hefta möguleika covid 19 veirunnar á að komast inn í landið. Það væru margir mælikvarðar á hvað heimsfaraldurinn hefði kostað.

„Við Íslendingar höfum á margan hátt verið leiðandi í útfærslum. Til dæmis við tvöföldu skymuninia. Aðferðarfræði sem margir tóku upp eftir að við höfðum innleitt hana hér á landi. Við vorum sömuleiðis snemma í því að opna fyrir bólusetningarvottorð eða sönnunum um fyrra smit og einfalda skymun í tengslum við það,“ sagði Bjarni. Þá væru Íslendingar í fremstu röð í smitrakningu og skilningi á því hvernig veiran dreifðist.
Jón Þór sagði reynsluna sýna að með hörðum aðgerðum á landamærunum væri hægt að ná fram nánast veirulausu landi og þar með litlum takmörkunum innanlands. „Bara einföld spurning. Hvað er faraldurinn búinn að kosta ríkissjóð fram að þessu.“ sagði Jón Þór.
Fjármálaráðherra sagði faraldurinn hafa kostað um tvö hundruð milljarða í beinum aðgerðum og annað eins í óbeinum aðgerðum. „Það er tjónið hingað til. Það liggur einhvers staðar á bilinu þrjú til fjögur hundruð milljarðar,“ sagði Bjarni. Það hafi að verulegu leyti verið óumflýjanlegt tjón en tekist hafi að draga verulega úr því með aðgerðum.
„Þegar háttvirtur þingmaður kallar eftir mjög hertum aðgerðum á landamærunum vil ég segja að við erum með mjög harðar aðgerðir. Við erum að leggja til að þær verði hertar enn frekar. Einhvers staðar verður að spyrja sig um meðalhóf og það er reyndar grundvallarregla skrifuð og óskrifuð í íslenskum rétti sem við verðum að horfa til. Við teljum að það sé verið að taka tillit til þess jafnvel þótt að verið sé að leggja upp með hér skyldu til að fara á sóttvarnahótel í ákveðnum tilvikum án möguleika á undanþágu,“ sagði Bjarni Benediktsson.