Bankman-Fried, sem stýrði FTX í þrot í nóvember, gengur laus gegn 250 milljóna dollara tryggingu og býr hjá foreldrum sínum í Palo Alto í Kaliforníu. Hann er ákærður fyrir féfletta fjárfesta og stela innistæðum viðskiptavina FTX.
Saksóknarar héldu því nýlega fram að Bankman-Fried hefði sent dulkóðuð skilaboð í gegnum samskiptaforritið Signal til yfirlögfræðings FTX. Í skilaboðunum hafi hann óskað eftir samstarfi. Þetta telja saksóknararnir benda til þess að Bankman-Fried reyni að hafa áhrif á vitni sem gæti bendlað hann við glæp, að sögn AP-fréttastofunnar.
Af þeim sökum óskuðu saksóknararnir eftir því að Lewis Kaplan, dómarinn í málinu, setti frekari skorður við notkun Bankman-Frieds á raftækjum og netinu, meðal annars með því að banna honum að nota samskiptaforrit og krefjast þess að eftirlitshugbúnaði verði komið fyrir í síma hans og tölvu.
Kaplan sagði að honum virtist sem að Bankman-Fried hefði gert hluti sem bentu til þess að hann hefði framið eða reynt að fremja glæp á meðan hann gengur laus gegn tryggingu. Þegar uppi væri staðið væri fangelsun mögulega skilvirkasta leiðin til þess að koma í veg fyrir að Bankman-Fried nýtti sér raftæki til að hafa samskipti sem ekki væri hægt að fylgjast með.
Mark Cohen, lögmaður Bankman-Frieds, sagði kröfur saksóknara harðneskjulegar og að þær gerðu honum erfitt fyrir að búa sig undir réttarhöldin sem eiga að hefjast í haust. Þegar dómarinn benti honum á að svo virtist sem að Bankman-Fried hefði rofið skilmála lausnar sinnar með því að nota dulkóðaða vefsíðu til þess að horfa á útsendingu frá Ofurskálinni um síðustu helgi sagðist Cohen gera sér grein fyrir að skjólstæðingur sinn þyrfti að fara að öllu með gát.