Fótbolti

Stjörnum prýtt lið Al Ittihad fékk skell og féll úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karim Benzema misnotaði vítaspyrnu í kvöld.
Karim Benzema misnotaði vítaspyrnu í kvöld. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Sádiarabíska liðið Al Ittihad, með menn á borð við Karim Benzema og N'Golo Kante innanborðs, er úr leik í heimsmeistarakeppni félagsliða eftir 3-1 tap gegn egypska liðinu Al Ahly í kvöld.

Ali Maaloul kom Al Ahly yfir með marki úr vítaspyrnu á 21. mínútu áður en Karim Benzema klikkaði á vítaspyrnu á hinum enda vallarins á síðustu mínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Hussein El Shahat tvöfaldaði forystu Al Ahly á 59. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 3-0 eftir mark Emam Ashour.

Egyptarnir þurftu svo að leika seinustu mínútur leiksins manni færri eftir að Anthony Modeste fékk að líta beint rautt spjald á 90. mínútu fyrir olnbogaskot, aðeins þremur mínútum eftir að hann hafði komið inn á sem varamaður.

Al Ittihad nýtti sér liðsmuninn og Karim Benzema klóraði í bakkann fyrir liðið á 92. mínútu, en þá var það orðið of seint og niðurstaðan varð 3-1 sigur Al Ahly sem er á leið í undanúrslit heimsmeistaramótsins á kostnað Al Ittihad.

Al Ahly mætir brasilíska liðinu Fluminese í undanúrslitum, en í hinum undanúrslitunum mætast Urawa Reds frá Japan og Englandsmeistarar Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×