Fram kemur í auglýsingu Domusnova fasteignasölu að um sé að ræða sölu á tækjum, búnaði, yfirtöku leigusamninga á einstökum stöðum eða öllum stöðunum sem heild.
„Grillhúsið er rótgróið fyrirtæki á veitingahúsamarkaði á Íslandi. Mikil tækifæri fyrir rétta aðila,“ segir í auglýsingunni. Í hartnær þrjá áratugi var Grillhús rekið við Tryggvagötu í Reykjavík, upphaflega undir heitinu Grillhús Guðmundar, en því var lokað í árslok 2020.
Grillhúsið ehf er í jafnri eigu Þórðar Bachmann og Hafsteins Hasler. Fram kemur í Viðskiptablaðinu að Grillhúsið hafi velt 760 milljónum króna árið 2022. Taprekstur hafi verið á Grillhúsinu frá 2019-2022 en kórónuveirufaraldurinn stóð yfir stóran hluta þess tíma. Félagið hafði skilað hagnaði sjö ár þar á undan.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 115 milljónir í árslok 2022. Skuldir námu 150 milljónum, þar af 47 milljónir til langtíma, og eigið fé var neikvætt um 35 milljónir.

Þórður Bachmann, annar eigenda Grillhússins, sagði ekki tímabært að ræða mögulega sölu að svo stöddu.
Nokkur tíðindi urðu í veitingarekstri hér á landi um áramótin þegar Íslenska hamborgarafabrikkan hætti starfsemi í Kringlunni og á Akureyri.