Í tilskipuninni frá Hvíta húsinu segir að landtökumennirnir fjórir hafi beitt Palestínumenn ofbeldi og hótunum og þar að auki reynt að ræna eða eyðileggja eygur þeirra. Yfirvöld á Vesturbakkanum og mannréttindasamtök segja landtökumenn hafa banað Palestínumönnum, kveikt í bílum og gert árásir á nokkur fámenn samfélög Bedúína og rekið þá frá heimaslóðum sínum.
Í tilskipuninni er haft eftir Biden að landtaka Ísraela komi niður á utanríkisstefnu Bandaríkjanna og mögulegri tveggja ríkja lausn sem ætlað sé að tryggja jöfn réttindi Ísraela og Palestínumanna til öryggis og frelsis. Landtakan grafi einnig undan öryggi í Ísrael og geti leitt til umfangsmeiri átökum í Mið-Austurlöndum, sem gætu skaða hagsmuni Bandaríkjanna.
Heimildarmenn AP fréttaveitunnar í Hvíta húsinu segja að verið sé að íhuga að beita fleiri landtökumenn refsiaðgerðum. Tilskipunin á ekki að vera notuð gegn bandarískum ríkisborgurum en margir landtökumenn á Vesturbakkanum eru bæði ríkisborgarar Bandaríkjanna og Ísrael. Refsiaðgerðirnar fela í sér að hægt sé að refsa þessu fólki fyrir að eiga í viðskiptum við þá sem hafa verið beittir þeim.
Ætla ekki að refsa ráðherrum
Biden hefur verið undir töluverðum þrýstingi vegna þess hve þétt hann hefur staðið við bakið á Ísraelum í hernaði þeirra á Gasaströndinni.
AP segir hann þó hafa þrýst á Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, um að koma í veg fyrir mannfall meðal óbreyttra borgara á Gasaströndinni. Hann hefur einnig gagnrýnt landtöku á Vesturbakkanum opinberlega og líkt henni við að hella olíu á þá fjölmörgu elda sem loga víða um Mið-Austurlönd.
Heimildarmenn AP segja að ekki standi til að refsa öfgafullum ráðherrum í Ísrael sem hafa ýtt undir og jafnvel hvatt til landtöku og ofbeldis á Vesturbakkanum.