Kristinn Tómasson, einn reyndasti geðlæknir landsins hvað varðar framkvæmd geðmata í sakamálum, var fenginn til þess að framkvæma slíkt mat á þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni.
Niðurstaða hans var að fimmtánda grein almennra hegningarlaga, sem kveður á um að þeim mönnum skuli ekki refsað, sem sökum meðal annars geðveiki, voru ófærir um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu, ætti við í hvorugu tilfelli.
Kvíði og misnotkun fíkniefna
Fyrir dómi bar hann að Sindri Snær væri meðal annars með sögu um áfallastreitu, kvíðaröskun og misnotkun fíkniefna.
Samkvæmt geðlæknisfræðilegu mati hans stafi engin hætta af honum vegna andlegra kvilla. Kristinn lagði áherslu á að geðlæknisfræðilegt mat og mat lögreglu þurfi alls ekki að fara sama.
„En hann getur í sjálfu sér verið hættulegasti maður veraldar,“ sagði hann en vísaði ekki endilega til Sindra Snæs í þeim efnum.
Áfengissýki geti ýtt undir aðra kvilla
Þá sagði hann Ísidór eiga við athyglisbrest, ofvirkni og áfengissýki að stríða. Hið síðastnefnda geti í mörgum tilfellum ýtt undir áhrif hinna tveggja. Engum persónuleikum sem skipta máli varðandi málið sé heldur til að dreifa í hans tilfelli.
Kristinn lagði töluverða áherslu á það að báðir mennirnir hafi gert sér grein fyrir því að vopnalagabrot þeirra væru refsiverð og þau voðaverk sem þeir eru sagðir hafa lagt á ráðin um hefðu verið það sömuleiðis, hefðu þau komið til framkvæmda.

Þeir hefðu báðir talað opinskátt um það sem þeim fór á milli og verið eins hreinskilnir og búast hefði mátt við af ungum mönnum í mjög erfiðum aðstæðum. Þeir hafi báðir séð eftir þeirri orðræðu sem þeir viðhöfðu sín á milli.
„Ljóst er að yfirgnæfandi þorri galgopalegrar orðræðu ungra manna leiðir ekki til neinna framkvæmda, það er óskaplega mikil undantekning,“ sagði Kristinn þegar Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs, spurði hann út í það hversu mikið væri að marka orðræðu sem tveir ungir menn viðhöfðu sín á milli.