Norður-Kórea hefur verið beitt þvingunum og refsiaðgerðum vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlana ríkisins frá árinu 2006. Þá hafa þær aðgerðir ítrekað verið hertar á undanförnum árum.
Í skýrslu sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna unnu fyrir öryggisráðið og blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir, kemur fram að brak úr Hwasong-11 hafi fundist í Karkív. Þeir segja ekkert benda til þess að skotflaugin hafi verið framleidd í Rússlandi og þá bendi gögn frá yfirvöldum í Úkraínu til þess að henni hafi verið skotið frá Rússlandi.
Í skýrslunni segir að það bendi til þess að Rússar hafi brotið gegn ályktunum öryggisráðsins, þar sem þeir hafa sjálfir fast sæti og neitunarvald. Rússar beittu neitunarvaldi þeirra í öryggisráðinu í síðasta mánuði til að binda enda á fimmtán ára eftirlit með eldflauga- og kjarnorkuvopnaframleiðslu í Norður-Kóreu.
Rússar hafa verið sakaðir um að kaupa umfangsmikið magn vopna og skotfæra frá Norður-Kóreu en yfirvöld í Kreml og í Pyongyang hafa þrætt fyrir það. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, funduðu í Rússlandi í fyrra og hétu því að styrkja samband ríkjanna varðandi hernað.
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa sakað Rússa um að skjóta minnst níu skotflaugum frá Norður-Kóreu að Úkraínu. Karkív, sem er næst stærsta borg landsins og liggur nærri landamærum Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum orðið fyrir linnulausum árásum Rússa.
Við þessar árásir og aðrar á aðrar borgir í Úkraínu hafa Rússar notað mikið magn eldflauga, stýriflauga og skotflauga. Í gær féllu fimm og á fjórða tug særðust þegar eldflaug var notuð til að varpa klasasprengjum á borgina Odessa við strendur Svartahafs.
Russia using a missile with cluster munitions in the heart of Odesa. Five people were killed, many more maimed. A war crime as clear as it gets. pic.twitter.com/1ESA5WgJpv
— Yaroslav Trofimov (@yarotrof) April 30, 2024