Erlent

Stjórn­völd í Kína harð­lega gagn­rýnd í á­lyktun Nató-fundarins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Fjölskyldumynd“ í Hvíta húsinu, þar sem Joe og Jill Biden buðu til kvöldverðar.
„Fjölskyldumynd“ í Hvíta húsinu, þar sem Joe og Jill Biden buðu til kvöldverðar. AP/Susan Walsh

Stjórnvöld í Kína eru með virkum hætti að greiða fyrir hernaði Rússa í Úkraínu, segja leiðtogar Atlantshafsbandalagsins í ályktun eftir fund þeirra í Washington. 

Þeir segja aukin tengsl Rússlands og Kína áhyggjuefni og eru uggandi vegna stækkandi kjarnorkuvopnabúrs Kínverja og getu þeirra í geimnum. Kínverjar eru hvattir til að láta af pólitískum og hernaðarlegum stuðningi við innrás Rússa í Úkraínu.

Ráðamenn í Kína hafa lýst yfir óánægju með að Nató sé að horfa til Asíu og hvatt leiðtoga Nató-ríkjanna til að stuðla ekki að átökum þar. Þá sagði sendinefnd Kína við Evrópusambandið að ráðstefnan í Washington hefði einkennst af kaldastríðshugsunarhætti.

Textinn í ályktuninni sem varðaði Kína væri fullur af lygum og áróðri.

Leiðtogar frá Ástralíu, Japan, Nýja-Sjálandi og Suður-Kóreu munu taka þátt í fundarhöldum í dag. 

Guardian hefur eftir Danny Russel, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðerra Bandaríkjanna í málefnum Asíu, að orðalagið í ályktuninni sé afgerandi og að framganga Kínverja hafi aðeins haft þau áhrif að þétta raðir Evrópuríkjanna og bandamanna þeirra á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.

Kínverjar hafa í vikunni tekið þátt í heræfingum í Belarús, sem stjórnvöld í Póllandi fylgjast náið með. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×