Kína tilkynnti í vikunni að þau ætluðu að setja 34 prósent tolla á vörur frá Bandaríkjunum eins og Bandaríkin ætla að gera við vörur frá þeim. Trump svaraði því svo í gær með því að tilkynna að tollar á Kína myndu þá hækka um 50 prósent myndi Kína ekki láta af sínum tollum. Hann gaf þeim frest út daginn í dag en hærri tollar taka gildi á morgun verði Kína ekki af tollahækkunum sínum. Þá sagði Trump sömuleiðis að öllum samningaviðræðum við Kína verði lokið hætti Kína ekki við.
Í frétt Guardian um málið segir að staðan á asískum mörkuðum virtist hafa batnað örlítið í morgunsárið eftir erfiða síðustu daga í kjölfar tilkynningar Trump um tollahækkanir í síðustu viku.
Traust hlutabréf í Kína hækkuðu um 0,7 prósent í gær, mánudag, sem er þó aðeins lítill hluti af þeim sjö prósentum sem þau féllu um sama dag. Hlutabréf í Hong Kong hækkuðu um tvö prósent eftir að kauphöllin þar átti sinn versta dag síðan 1997 samkvæmt frétt Guardian. Þar kemur einnig fram að hlutabréf í Bandaríkjunum hafi hækkað örlítið eftir að hafa hríðfallið síðustu daga. Þá kemur einnig fram að hlutabréf í Japan hafi hækkað um sex prósent og þannig aðeins jafnað sig en þau höfðu ekki verið lægri í 18 mánuði.
Grunntollar Trump, 10 prósent, á flestar þjóðir tóku gildi um helgina en hækka svo á morgun og eru ólíkir eftir löndum.
Kína er ekki eina landið sem hefur svarað þessum tollahækkunum. Evrópuráðið hefur lagt til að tollum Trump verði svarað með 25 prósenta tollum á ákveðnar vörur frá Bandaríkjunum, svo sem sojabaunir, hnetur, pylsur á sama tíma og þau hafa sagst tilbúin að ræða við Trump um að falla frá tollum geri hann það sama.
Maros Sefcovic , viðskiptaráðherra Evrópusambandsins, sagði á ráðstefnu í vikunni að fyrr eða síðar myndu þau sitja við samningaborðið með Bandaríkjunum og finna einhverja leið til að málamiðla.
Tollar hafa þegar verið hækkaði á ákveðnar vörur frá Evrópusambandinu, eins og bíla og málma. Á morgun, miðvikudag, hækka tollar svo á fleiri vörur. Trump hefur sömuleiðis hótað að hækka tolla á áfengi sem flutt er inn til Bandaríkjanna frá Evrópu.
Markaðir í Taívan hríðféllu í gær. Lai Ching, forseti landsins, sagði í gær að þau væru tilbúin til samningaviðræðna og lagði til að tollar yrðu afnumdir og að Taívan myndi auka fjárfestingar í Bandaríkjunum. Leggja á 32 prósenta toll á innfluttar vörur frá Taívan.