Viðskipti erlent

Trump boðar „stór­fellda“ tolla á lyf en Róbert hefur ekki á­hyggjur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Trump ætlar að hækka tolla á innflutt lyf sem hafa hingað til verið undanskilin tollum. Róbert Wessman hefur ekki miklar áhyggjur af stöðu Alvotech vegna þess.
Trump ætlar að hækka tolla á innflutt lyf sem hafa hingað til verið undanskilin tollum. Róbert Wessman hefur ekki miklar áhyggjur af stöðu Alvotech vegna þess. Vísir/Vilhelm/EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að bráðum yrðu settir „stórfelldir“ tollar á innflutt lyf til landsins. Forstjóri Alvotech segist ekki hafa áhyggjur af hækkun tolla, söluaðili Alvotech myndi bera kostnaðinn sem hlytist af þeim.

„Við ætlum að tilkynna mjög bráðlega talsverðan toll á lyf,“ sagði Trump á fjáröflunarkvöldverði fyrir þingmenn Repúblikanaflokksins í gærkvöldi

„Og þegar þeir heyra það, munu þeir fara frá Kína. Þeir munu yfirgefa fleiri staði því þeir þurfa að selja, meirihluti vara þeirra er seldur hér og þeir munu opna verksmiðjur sínar út um allt.“

Innlend lyfjaframleiðsla hefur skroppið saman á síðustu áratugum og hefur flest framleiðla á virkum lyfjaefnum flust til annarra landa á borð við Kína og Indland, samkvæmt matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA).

Söluaðilar Alvotech myndu bera kostnað af hækkun tolla

Trump tilkynnti tíu prósenta toll á flest ríki heims fyrir viku síðan og bættust fleiri tollar við í dag, þar á meðal 104 prósenta tollur á kínverskar vörur. Lyf hafa hins vegar verið undanskilin tíu prósenta tollinum og gagnkvæmum verndartollum.

„Það hafa vanalega ekki verið tollar á lyf og það hefur verið samkomulag um það á milli landa enda eru sennilega 80% af öllum lyfjum í Bandaríkjunum, samkvæmt magni, annaðhvort samheitalyf eða lyf sem eru innflutt,“ sagði Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, í samtali við Viðskiptablaðið.

Eftir langt umsóknarferli fékk Alvotech í fyrra markaðsleyfi fyrir tvær lyfjatæknihliðstæður, adalimumab (hliðstæðu Humira) og ustekinumab (hliðstæðu Stelara). Ekki liggur fyrir hvort tollarnir leggist á frumlyf eða hliðstæðulyf eða hvort tveggja.

Róbert taldi að tollahækkanir á lyfjaiðnað myndu leiða til verulegs lyfjaskorts ef innflutningur drægist saman.

„Við fórum í gegnum þetta og reiknuðum að 10% tollur á vörur Alvotech, þ.e.a.s. lyf sem eru algjörlega framleidd á Íslandi, myndi leiða til rúmlega 4% hækkunar á útsöluverði og þá væri það okkar söluaðili sem flytur það inn sem myndi bera þann kostnað,“ sagði Róbert við Viðskiptablaðið.

Taldi hann að önnur hliðstæðulyf flutt inn til Bandaríkjanna myndu lenda í hærri tollaflokki en Alvotech þar sem meirihluti hliðstæðulyfja kemur frá Asíu.

„Ég hef ekki áhyggjur af stöðu Alvotech þegar kemur að tollunum. Við erum með 28 lyf í þróun og verðum fyrsta hliðstæðufyrirtækið til að setja þrjú lyf á markað á einu ári. Þar að auki er ekkert fyrirtæki til í heiminum sem er með jafn mörg lyf í þróun og við,“ sagði Róbert við Vb.

Þá taldi hann núverandi markaðsókyrrð meira áhyggjuefni fyrir hluthafa frekar en rekstraraðila. Alvotech skilaði enn sterkri afkomu og verðbreytingar markaðsins endurspegli engan veginn verðmæti félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×