Skoðun

Tala ekki um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Dagur Evrópusambandsins var í gær 9. maí en þann dag árið 1950 flutti Robert Schuman, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, ávarp sem markaði upphafið að sambandinu eins og við þekkjum það í dag. Þar kallaði Schuman eftir því að kola- og stálframleiðsla Evrópuríkja yrði sett undir eina yfirþjóðlega stjórn sem yrði fyrsta skrefið á þeirri vegferð að til yrði að lokum evrópskt sambandsríki. Síðan hafa jafnt og þétt verið tekin sífellt fleiri skref í þá átt.

„Sameiginleg kola- og stálframleiðslu mun þegar í stað að leggja sameiginlegan grunn að efnahagsþróun sem fyrsta skrefið í átt að evrópsku sambandsríki,“ segir þannig í ávarpinu. Forystumenn í röðum hérlendra Evrópusambandssinna minnast dagsins árlega og skírskota til Schuman-ávarpsins og var gærdagurinn þar engin undantekning. Hins vegar minnast þeir iðulega einungis á fyrsta skrefið í þeim efnum en ekki lokamarkmiðsins. Það tala þeir ekki um.

Meðal þess sem þróun Evrópusambandsins í átt að einu sambandsríki hefur falið í sér er að vægi ríkja þess við ákvarðanatökur hefur í vaxandi mæli tekið mið af íbúafjölda þeirra í stað þess að þau sitji jafnfætis við sama borð eins og allajafna þegar um alþjóðastofnanir er að ræða. Eitt ríki, eitt atkvæði. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði vægi landsins á þingi þess á við hálfan þingmann á Alþingi og í ráðherraráðinu einungis á við 5% af alþingismanni.

Væntanlega segir það sig sjálft að við slíkar aðstæður hefðu fulltrúar íslenzkra kjósenda ekki mikið um málin að segja. Þar á meðal til dæmis um sjávarútvegs- og orkumál og langflesta aðra málaflokka. Við yrðum eftirleiðis að vona að ákvarðanir sem teknar væru á vettvangi Evrópusambandsins hentuðu okkar hagsmunum jafnvel þó þær yrðu eðli málsins samkvæmt seint teknar með þá í huga. Við værum einfaldlega ekki lengur við stýrið í þeim efnum.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×