Erlent

Pútín og Xi ræddu ó­dauð­leika í gegnum líffæragjöf

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Pútín og Xi stóðu í oddi fylkingar.
Pútín og Xi stóðu í oddi fylkingar. AP

Hljóðnemi sem kveikt var á tók upp stutt samtal Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og Xi Jinping forseta Kína þar sem þeir ræddu um það að líffæragjöf gæti einn daginn veitt ódauðleika á stærðarinnar hersýningunni sem fór fram í Peking í dag.

Xi Jinping forseti Kína leiddi hóp þjóðarleiðtoga, þeirra á meðal Pútín og Kim Jong Un leiðtoga Norður-Kóreu, upp á sérstakan áhorfendapall. Hersýningin fór fram í tilefni af 80 ára afmæli loka seinni heimsstyrjaldarinnar í Kína en margir lesa einnig úr henni væna pillu til Vesturlanda, og sérstaklega Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Kínverskur ríkismiðill var með athöfnina í beinu streymi og þar virðast þeir hafa tekið upp hluta af samræðu sem var líklega ekki ætluð heiminum öllum. Þar sem þessir tveir úr hópi valdamestu manna heims gengu upp pallinn heyrðist í túlki Pútín segja á kínversku: „Líftækni er í stanslausri þróun.“

Mál túlksins er svo ógreinilegt um stund en svo heyrist hann bæta við, samkvæmt umfjöllun Guardian: „Líffæragjöf er hægt að framkvæma ítrekað. Því lengur sem maður lifir, því yngri verður maður og [maður getur] jafnvel öðlast ódauðleika.“

„Sumir spá því að á þessari öld geti menn lifað til 150 ára,“ svarar Xi Jinping svo á kínversku.

Vladímír Pútín hefur verið forseti Rússlands í 25 ár og hefur ítrekað breytt stjórnarskrá og lögum Rússlands til að auka völd sín og tryggja það að hann geti ráðið þar ríkjum til dauðadags. Xi Jinping afnam sömuleiðis mörk á fjölda kjörtímabila sitjandi forseta árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×