Viðskipti innlent

Gengi Skaga tekur dýfu eftir til­kynningu Ís­lands­banka

Árni Sæberg skrifar
Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.
Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga. Skagi

Gengi hlutabréfa í Skaga hefur lækkað um rúm tíu prósent frá opnun markaða í morgun. Hópur hluthafa í Íslandsbanka, sem á í samrunaviðræðum við Skaga, krafðist hluthafafundar og stjórnarkjörs í bankanum í gærkvöldi.

Við lokun markaða í gær stóð gengi Skaga í 22,6 krónum á hlut en stendur í 20,2 krónum þegar þessi frétt er skrifuð klukkan 10:20. Það gerir lækkun upp á 10,62 prósent það sem af er degi.

Gengið lækkaði nokkuð skarpt í fyrstu viðskiptum í morgun og hefur farið enn lækkandi síðan þá. Lækkunin hefur orðið í viðskiptum upp á 432 milljónir króna.

Skagi á um þessar mundir í samrunaviðræðum við Íslandsbanka og gengi félagsins hefur hækkað nokkuð frá því að tilkynnt var um þær. Í gær tilkynnti Íslandsbanki að hlutahafahópu, sem eigi meira en fimm prósent hlutafjár í bankanum, hafa krafist þess að boðað yrði til stjórnarkjörs. 

Samkvæmt samþykktum bankans og hlutafélagalaga þarf að boða til fundarins innan tveggja vikna frá móttöku kröfu. Næsti fundur var fyrirhugaður þann 19. mars 2026.

Þá tilkynnti stjórnarformaður bankans, Linda Jónsdóttir, í gærmorgun að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í stjórn bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×