Erlent

Kín­verjar og Rússar lýsa yfir stuðningi við Venesúela

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verulega hefur dregið úr olíuflutningum frá Venesúela eftir að Bandaríkjamenn hófu aðgerðir sínar á svæðinu.
Verulega hefur dregið úr olíuflutningum frá Venesúela eftir að Bandaríkjamenn hófu aðgerðir sínar á svæðinu. Getty/Jose Bula Urrutia

Stjórnvöld í Kína og Rússlandi hafa lýst yfir stuðningi við Venesúela, á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt til stjórnarskipta í landinu og stöðvað olíuflutningaskip og hótað því að halda olíunni eða selja.

Hægt hefur á olíuflutningaskipum frá því að Bandaríkjastjórn hóf að stöðva og taka yfir olíuflutningaskip sem Bandaríkin segja hluta af skuggaflota Venesúela. Skipin eru sögð flytja olíu sem sætir útflutningsbanni af hálfu Bandaríkjanna.

Utanríkisráðuneyti Kína fordæmdi aðgerðir Bandaríkjamanna í gær, eftir að olíuflutningaskip á leið til Kína var stöðvað. Skipið var ekki á bannlista Bandaríkjanna en stjórnvöld í Panama sögðu það hafa brotið gegn lögum landsins og breytt nafni sínu og aftengt samskiptabúnað.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði við blaðamenn í gær að stjórnvöld í Venesúela væru í fullum rétti í samskiptum sínum og viðskiptum við önnur ríki og að Kína væri á móti öllum einhliða og ólöglegum þvingunaraðgerðum.

Kínverjar eru stærstu kaupendur olíu frá Venesúela.

Utanríkisráðherrar Venesúela og Rússlands gagnrýndu einnig aðgerðir Bandaríkjanna í gær, þá einnig árásir Bandaríkjamanna á báta í Karabíska hafinu. Aðgerðirnar hafa beinst gegn meintum fíkniefnasmyglurum en talið er að saklausir borgarar séu meðal þeirra sem Bandaríkjamenn hafa drepið í árásum sínum.

Rússar hafa lýst yfir stuðningi við stjórnvöld í Venesúela, á meðan Donald Trump hefur kallað eftir því að forsetinn Nicolas Maduro afsali sér völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×