Skoðun

Af hverju efast fólk enn – þegar loftslagsvísindin eru skýr?

Eyþór Eðvarðsson skrifar

Um skipulagðan áróður, hugmyndafræði og áskoranir fyrir lýðræðið

Loftslagsbreytingar eru meðal best rannsökuðu viðfangsefna samtímans. Samstaða vísindamanna um að hnattræn hlýnun sé raunveruleg og að mestu af mannavöldum er yfirgnæfandi. Samt birtast stöðugt bækur, greinar, færslur og ummæli sem sá efasemdum um grundvallaratriði loftslagsvísinda. Þessi verk eru gjarnan kynnt sem sjálfstæð og gagnrýnin umfjöllun, en endurtaka í reynd kunnugleg rök og aðferðir sem áður hafa verið notaðar á kerfisbundinn hátt til að grafa undan vísindalegri samstöðu, meðal annars í umræðu um skaðsemi reykinga, eyðingu ósonlagsins og aðrar umhverfisógnir. Þótt slík rit standi gjarnan utan ritrýnds vísindakerfis hafa þau umtalsverð áhrif á opinbera umræðu og traust almennings á vísindum.

Algeng skýring sem dugar ekki

Algeng skýring á loftslagsefasemdum er sú að almenningur skilji vísindin illa eða misskilji eðli vísindalegrar óvissu. Þótt það geti átt við í einstaka tilfellum er sú skýring langt frá því að vera fullnægjandi. Þegar horft er til sögunnar og rannsókna á orðræðu í kringum umdeild vísindamál blasir önnur mynd við: efasemdir spretta sjaldnast sjálfkrafa upp í samfélaginu. Þær eru oft markvisst ræktaðar.

Sagan endurtekur sig – óvissa sem aðferð

Á seinni hluta 20. aldar var ítrekað reynt að grafa undan vísindaniðurstöðum sem ógnuðu öflugum efnahagslegum hagsmunum. Þegar tengsl reykinga og lungnakrabbameins urðu óumdeilanleg brugðust tóbaksfyrirtæki ekki við með því að hrekja vísindin, heldur með því að framleiða óvissu. Þau fjármögnuðu eigin „rannsóknir“, réðu vísindamenn til sín sem efuðust um niðurstöður meginstraumsins og héldu því fram að málið væri „ekki enn sannað“.

Sama uppskrift var notuð í umræðu um eyðingu ósonlagsins og síðar um súrt regn. Þessi saga er rakin í bókinni Merchants of Doubt eftir Naomi Oreskes og Erik M. Conway. Þar er sýnt fram á hvernig litlir en áhrifamiklir hópar beittu sömu aðferðum aftur og aftur. Markmiðið var ekki að vinna fræðilega rökræðu, heldur að hafa áhrif á og tefja pólitískar ákvarðanir. Óvissa varð að vopni.

Hluti þessarar aðferðar fólst jafnframt í því að þrýsta á fjölmiðla um að „sanngirni“ væri gætt, sem í framkvæmd gat þýtt að jaðarskoðanir fengju sama vægi í umræðu og niðurstöður sem studdust við yfirgnæfandi vísindalega samstöðu.

Vísindalegt yfirbragð án vísinda

Í áhrifaherferðum gegn loftslagsvísindum er algengt að beita valkvæðri notkun gagna („cherry picking“), þar sem stakar mælingar eða afmörkuð tímabil eru dregin fram án heildarsamhengis. Þannig fæst „hentug“ niðurstaða sem uppfyllir ekki þær kröfur sem stofnanir á borð við Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) styðjast við.

Samhliða þessu hefur verið reynt að skapa þá tilfinningu að víðtækur vísindalegur ágreiningur ríki þótt slíkur ágreiningur sé í raun ekki til staðar. Þekktasta dæmið er svonefnd Oregon Petition þar sem því var haldið fram að yfir 30.000 vísindamenn væru ósammála þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum. Við nánari skoðun kom í ljós að margt var athugavert við undirskriftarlistann. Hann var ekki sannreyndur og á listanum voru nöfn á borð við Charles Darwin. Langflestir þeirra sem skrifuðu undir höfðu enga sérþekkingu á loftslagsvísindum. Skilaboðin voru þó einföld og markmiðið skýrt: búa til efa um vísindalegar niðurstöður.

Af hverju efasemdir lifa áfram – frelsi, markaður og sjálfsmynd

Þótt uppruni margra rangfærslna megi rekja til skipulagðs áróðurs lifa efasemdir ekki áfram nema þær festist í menningu, sjálfsmynd og pólitík. Með tímanum losna rökin frá uppruna sínum og verða sjálfbær. Þau eru endurtekin í samfélagsumræðu og sett fram sem merki um yfirvegaða, gagnrýna hugsun.

Rannsóknir í hugrænni sálfræði og stjórnmálasálfræði sýna að afstaða fólks til loftslagsvísinda mótast oft síður af mati á eðlisfræðilegum gögnum en af undirliggjandi hugmyndafræðilegum gildum. Fyrir marga sem leggja ríka áherslu á einstaklingsfrelsi, sjálfræði og óheftan markað verða loftslagsvísindi tortryggileg ekki vegna vísindalegra veikleika, heldur vegna þeirra samfélagslegu og pólitísku afleiðinga sem niðurstöðurnar eru taldar hafa. Í slíkum aðstæðum færist umræðan gjarnan frá spurningum um loftslag og losun yfir í ágreining um vald, ríkisafskipti og framtíðarsýn samfélagsins.

Í þessu samhengi skiptir máli að hafa í huga að skipulögð hagsmunaöfl sem vinna gegn loftslagsaðgerðum hafa um árabil veitt fjárhagslegan og skipulagslegan stuðning félagasamtökum, hugveitum og áhrifavöldum sem aðhyllast slíka frjálshyggjulega heimsmynd. Þannig verða hugmyndafræðileg mótstaða og efnahagslegir hagsmunir samverkandi afl sem viðheldur efasemdum og tefur nauðsynlegar aðgerðir, þrátt fyrir skýran vísindalegan grundvöll.

Hagsmunaaðilar hindra framfarir

Á loftslagsráðstefnunni COP30 í Belém í nóvember 2025 kom skýrt fram hvernig hagsmunaaðilar úr jarðefnaeldsneytisiðnaðinum hafa aðgang og áhrif langt umfram það sem eðlilegt má teljast. Samkvæmt greiningu The Guardian voru yfir 1.600 fulltrúar tengdir olíu, gasi og kolum skráðir til þátttöku, eða um einn af hverjum 25 þátttakendum.

Christiana Figueres, fyrrverandi framkvæmdastjóri UNFCCC og einn helsti arkitekt Parísarsamningsins, ásamt António Guterres framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og fjöldi IPCC-vísindamanna, hafa ítrekað varað við því að víðtækur aðgangur hagsmunaafla jarðefnaeldsneytis að loftslagsviðræðum tefji nauðsynlegar aðgerðir og veiki metnað samninganna. Climate Action Network, regnhlífarsamtök yfir 1.900 umhverfis- og borgarasamtaka, hafa tekið í sama streng og líkt stöðunni við það að tóbaksiðnaðurinn hefði setið við borðið í alþjóðlegum samningum um lýðheilsu — samlíking sem undirstrikar hversu alvarlegur hagsmunaáreksturinn er.

Áskorun fyrir lýðræðið

Á sama tíma og vísindin hafa aldrei verið skýrari hefur áhugi á loftslagsmálum dvínað. Í síðustu alþingiskosningum spurðu fjölmiðlar lítið sem ekkert út í loftslagsaðgerðir, þrátt fyrir að um eitt stærsta viðfangsefni samtímans sé að ræða. Loftslagsstefnur stjórnmálaflokkanna eru veikburða og áherslur ríkisstjórnarinnar ekki í samræmi við alvarleika vandans.

Aðgerðaleysi er ekki hlutlaus afstaða heldur pólitísk ákvörðun sem þjónar fyrst og fremst þeim hagsmunum sem vilja að ekkert breytist. Við getum gert betur.

Höfundur er í loftslagshópnum París 1,5 sem berst fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum til að takast á við loftslagsvandann.




Skoðun

Sjá meira


×