Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkis, staðfesti í samtali við Vísi í dag að hann hafi rifist við stjórnarmann Fylkis eftir 4-0 tap liðsins gegn ÍBV í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar um helgina.
„Þetta voru tveir fullorðnir karlmenn að ræða málin. Við vorum ósáttir við skelfilegan leik í Eyjum. Við í Árbænum höfum tilfinningar og þetta er bara eitthvað sem gerðist. Þetta er búið í dag,“ sagði Ásgeir Börkur.
„Svo það sé alveg á hreinu þá hafði þetta engin áhrif á það sem gerðist í dag,“ bætti hann við en Ásmundur Arnarsson var í dag rekinn sem þjálfari Fylkis og Hermann Hreiðarsson ráðinn í hans stað.
„Það er ekki mitt að meta hvort það hafi verið rétt ákvörðun. Við erum með menn í stjórninni sem stjórna þessum málum. Ási gerði flotta hluti í Árbænum og verður aldrei gert lítið úr því.“
Hann segist ekkert nema gott um Hermann að segja. „Hann býr í Árbænum og maður sér hann á leikjum karla- og kvennaliðsins. Maður veit hvaða mann hann hefur að geyma. Ég býð hann velkominn til starfa.“
Ásgeir Börkur reifst við stjórnarmann: Var klárað á staðnum

Tengdar fréttir

Ásmundur hættur hjá Fylki | Hermann tekur við
Hermann Hreiðarsson er nýr þjálfari Fylkis eftir að stjórn knattspyrnudeildar Fylkis ákvað að segja Ásmundi Arnarssyni upp störfum.