Erlent

Títan eða halastjarna næsta takmark NASA í sólkerfinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Dragonfly-dróninn myndi svífa á milli staða á Títan og rannsaka efnasamsetningu yfirborðsins. Þetta yrði í fyrsta skipti sem manngerður hlutur flygi á öðrum hnetti.
Dragonfly-dróninn myndi svífa á milli staða á Títan og rannsaka efnasamsetningu yfirborðsins. Þetta yrði í fyrsta skipti sem manngerður hlutur flygi á öðrum hnetti. NASA
Bandaríska geimvísindastofnunin NASA grisjaði í dag úr tillögum að næsta könnunarleiðangri hennar í sólkerfinu. Eftir standa tvær tillögur, önnur um að sækja sýni úr halastjörnu en hin um leiðangur til tunglsins Títans. Endanleg ákvörðun verður tekin um mitt ár 2019.

Tólf tillögur lágu fyrir að svokölluðu New Frontiers-verkefni NASA. Kostnaður við leiðangra á vegum verkefnisins getur mest orðið milljarður dollara og er samkeppni haldin um hvert viðfangsefni þeirra á að vera.

Að þessu sinni voru það CAESAR- og Dragonfly-leiðangrarnir sem hlutu náð fyrir augum NASA. Bæði verkefni verða fjármögnuð út næsta ár en ákvörðun verður tekin um hvort þeirra hreppir hnossið um mitt ár 2019. Geimfari yrði skotið á loft um miðjan næsta áratug, að því er segir í frétt á vef Planetary Society.

CAESAR á að sækja sýni til sömu halastjörnu og Rosetta heimsótti um árið og flytja það aftur til jarðar.NASA
Markmið CAESAR er að senda geimfar til halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko, þeirra sömu og Evrópska geimstofnunin (ESA) heimsótti með Rosetta- og Philae-geimförunum, og nái í sýni sem yrði sent aftur til jarðar.

Dragonfly-leiðangurinn stefnir á Títan, stærsta tungl Satúrnusar. Títan er einstakt í sólkerfinu en það er eina tunglið með þykkan lofthjúp. Þar mynda fljótandi kolvetni vötn og höf á yfirborðinu.  Dragonfly myndi fljúga um Títan og rannsaka nokkra staði á yfirborði tunglsins.

Á vefsíðu verkefnisins kemur fram að geimfarið væri dróni sem myndi taka sýni og greina efnasamsetningu yfirborðsins, meðal annars til að rannsaka lífræn efnasambönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×