Dýrasti hluturinn var hins vegar silfurslegin útgáfa af Mein Kampf, bókinni sem Hitler gaf út árið 1925, með merki arnarins og hakakrossinum á. Bókin, sem eitt sinn var í eigu Hermanns Göring yfirmanns þýska flughersins, seldist á 130 þúsund evrur, eða tæpar 18 milljónir króna.
Margir fleiri hlutir úr eigu hátt settra nasista voru boðnir upp, svo sem Heinrichs Himmler, leiðtoga SS-sveitanna, og Rudolfs Hess varakanslara. Einn af þeim munum sem vöktu hvað mesta eftirtekt var kvöldverðarkjóll Evu Braun, sambýliskonu Hitlers, sem bandarískir hermenn fundu árið 1945 í Salzburg.
Ekki voru aðeins boðnir upp munir frá þriðja ríkinu heldur mörgum mismunandi tímabilum í mannkynssögunni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hermann Historica býður upp muni úr eigu nasistaforingja. Fyrir þremur árum voru buxur af Hitler boðnar þar upp.

Menachem Margolin, rabbíni og leiðtogi Samtaka evrópskra gyðinga, er einn af þeim sem hafa harðlega gagnrýnt uppboðið og hvatti hann Hermann Historica til að hætta við það. Óvíst væri í hvaða höndum munirnir myndu enda og hætt við því að þeir yrðu notaðir til þess að upphefja nasismann. „Það sem þið eruð að gera er ekki ólöglegt, en það er rangt,“ sagði Margolin. „Ég biðla ekki til ykkar af lagalegum ástæðum heldur siðferðilegum.“
Samkvæmt Pacher eru flestir munir á slíkum uppboðum seldir til safna. Í Bandaríkjunum og Asíu hafa mörg söfn úr miklum fjármunum að spila. Aðeins 20 prósent væru seld til einkasafnara. Hann gat þó ekki gefið upp hverjir hefðu keypt munina því það væri andstætt þýskum lögum.