Jamie Vardy tókst ekki að koma í veg fyrir 0-2 tap Leicester City gegn Manchester United í gær þegar lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fór fram. Tapið þýddi að Leicester endaði í 5. sæti deildarinnar eftir að hafa verið í öðru til þriðja sæti nær allt tímabilið.
Hinn 33 ára gamli Vardy er samt sem áður markahæsti leikmaður deildarinnar á þessu tímabili. Er þetta í fyrsta skipti sem hann nær þeim áfanga en hann er að sama skapi elsti leikmaðurinn til að vinna þau verðlaun frá því að úrvalsdeildin var stofnuð.
Eight years ago Jamie Vardy was playing in non-league.
— BBC Sport (@BBCSport) July 26, 2020
He's just become the oldest player to win the Premier League Golden Boot after finishing the season with 23 goals https://t.co/BPq2HBFThi pic.twitter.com/vDnvMRezKA
Vardy skoraði 23 mörk á tímabilinu. Pierre Emerick-Aubameyang virtist ætla að koma sér í baráttuna um gullskóinn er hann skoraði tvö mörk í 3-2 sigri Arsenal á Watford. Aubameyang endaði tímabilið með 22 mörk og hlaut því silfurskórinn.
Danny Ings kom svo öllum á óvart og tryggði sér bronsskóinn en hann skoraði einnig 22 mörk. Hann spilaði hins vegar fleiri leiki en Aubameyang.
Vardy er eins og áður sagði elsti leikmaðurinn til að hljóta verðlaunin en metið var í eigu Didier Drogba - fyrrum leikmanns Chelsea - sem vann þau fyrir áratug síðan, þá 32 ára að aldri.
Kevin De Bruyne - miðvallarleikmaður Manchester City - var stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar en hann lagði upp 20 mörk. Jafnaði hann þar með met Thierry Henry - fyrrum leikmanns Arsenal - frá tímabilinu 2002-2003. Þá hlaut Ederson - markvörður Man City - gullhanskann en þann titil fær sá markvörður sem heldur oftast hreinu í deildinni.
Alls spilaði Ederson 16 leiki í deildinni án þess að fá á sig mark.