Í frétt Reuters segir að um formlegt skref sé að ræða í langri deilu um framsal Assange og það sé tekið í kjölfar þess að í mars var honum neitað að áfrýja úrskurði um að lagalega mætti framselja hann til Bandaríkjanna.
Sjá einnig: Kristinn kallar eftir skýrri afstöðu þingmanna í máli Assange
Patel verður að skrifa undir framsalskipun og eftir það mun Assange geta gert lokatilraun til að stöðva framsalið.
Assange var handtekinn í sendiráði Ekvador í Lundúnum árið 2019. Hann var eftirlýstur fyrir að mæta ekki í dómsal þegar hann átti að gera það og hafði hann haldið til í sendiráðinu í sjö ár. Frá því hann var handtekinn hefur Assange verið haldið í hámarksöryggisfangelsinu Belmarsh.
Bandaríkjamenn hafa krafist þess að Assange verði framseldur vegna ákæra fyrir samsæri um tölvuinnbrot og njósnir þar í landi. Ákærurnar má rekja til birtingar Wikileaks á hundruð þúsunda skjala Bandaríkjahers og utanríkisþjónustunnar árið 2010. Skjölunum var lekið til samtakanna af Chelsea Manning.