Lilja segir starfsumhverfi fjölmiðla um heiminn allan búið að gjörbreytast með tilkomu samfélagsmiðla og annarra efnisveita.
„Það sem við erum að gera núna er að reyna að ná betri tökum á þessu, bæði með því að nú var verið að kynna í ríkisfjármálaáætlun mögulegan skattalegan stuðning við íslenska fjölmiðla,“ segir Lilja.
Hún segir að það verði hennar eitt af hennar megin hlutverkum á þessu kjörtímabili, að hlúa betur að fjölmiðlamarkaði.
„Þetta snýr að þessari lýðræðislegu umræðu sem er svo dýrmæt í öllum þjóðfélögum. Það er mjög brýnt að við náum betri tökum á þessu,“ segir Lilja.
Í ríkisfjármálaáætlun var kynntur aukinn stuðningur við fjölmiðlafyrirtæki sem nær tveimur milljörðum á næstu fimm árum, samkvæmt Lilju.
„Nú förum við í að útfæra þetta en ég var mjög ánægð með að sjá að þessi tillaga náði brautargengi inn í ríkisfjármálaáætlun.“
Lilja segir einnig að verið sé að skoða leiðir til að auka skattalegt jafnræði milli innlendra og erlendra aðila, sem hafa sogað til sín sífellt meira af innlendum auglýsingamarkaði.
„Ég hef komið með tillögur þess efnis og ég vonast til að þær nái brautargengi mjög fljótlega,“ segir Lilja, því staðan sé alvarleg og verði þróunin eins og hún hafi verið liggi fyrir að það muni draga úr lýðræðislegri umræðu hér á landi.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir í viðtali við Vísi í dag að yfirvöld hafi ítrekað svikið loforð þess efnis að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og skattleggja erlenda aðila sem taki stóran hluta af kökunni. Lilja sagði í febrúar í fyrra enn stefna ótrauð á að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Þeirri skoðun hefur hún haldið fram sem ráðherra í málaflokknum um árabil án þess að breyting hafi orðið á stöðu RÚV á auglýsingamarkaði.
Þá sagði Lilja í febrúar 2021 að skattlagning á erlendar streymisveitur og samfélagsmiðla á borð við Facebook væri mjög brýnt mál. Tveimur árum síðar hefur ekki orðið breyting á umhverfi aðila á borð við Netflix og Facebook hér á landi.