Erlent

Óásættanlegar kröfur frá Rússum á stuttum fundi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá viðræðunum í Istanbúl í Tyrklandi í dag.
Frá viðræðunum í Istanbúl í Tyrklandi í dag. AP/Ramil Sitdikov

Viðræðunum milli úkraínskra og rússneskra erindreka í Istanbúl í Tyrklandi er lokið, innan við tveimur tímum eftir að þær hófust. Rússar eru sagðir hafa lagt fram mjög umfangsmiklar kröfur sem Úkraínumenn gætu ekki sætt sig við.

Varnarmálaráðherra Úkraínu, sem stýrði úkraínsku sendinefndinni segir að samþykkt hafi verið að skiptast á stríðsföngum. Þúsund mönnum fyrir þúsund menn og var þar að auki talað um að halda viðræðum milli ríkjanna áfram. Hvenær og hvar nýr 

Væntingarnar fyrir fundinn voru litlar sem engar. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lagði viðræðurnar til þegar hann hafnaði kröfu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um almennt þrjátíu daga vopnahlé. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, lagði þá til að hann og Pútín myndu ræða málin en því neitaði Pútín og sendi þess í stað tiltölulega lágt setta embættismenn.

Sjá einnig: Litlar væntingar til fyrstu beinu friðarviðræðnanna í meira en þrjú ár

Litlar formlegar fregnir hafa borist af fundinum en blaðamenn ytra hafa þó eftir heimildarmönnum sínum að kröfur Rússa hafi verið miklar. Fyrir viðræðurnar sögðust Úkraínumenn vilja ræða almennt vopnahlé en Rússar eru sagðir hafa haft aðrar hugmyndir.

Heimildarmaður Reuters í Úkraínu segir að mjög fljótt hafi komið í ljós að gjáin milli sendinefnda væri mjög breið. Hann segir kröfur Rússa hafa verið þess eðlis að ekki kæmi til greina að verða við þeim eða jafnvel ræða þær. Í rauninni hafi þær ekki verið í tenglsum við raunveruleikann.

Meðal annars eru Rússar sagðir hafa krafist þess að Úkraínumenn hörfuðu frá fjórum héruðum landsins sem Rússar hafa reynt að hernema frá því innrás þeirra hófst í febrúar 2022. Fyrr væri ekki hægt að koma á vopnahléi.

Yfirmaður umfjöllunar um heimsmálin hjá Wall Street Journal fer yfir hve umfangsmiklar kröfur Rússa voru.

Þar er um að ræða Lúhansk, Dónetsk, Saporisjía og Kherson. Pútín lýsti árið 2022 yfir innlimun þeirra fjögurra héraða en Rússar stjórna þó engu þeirra að fullu. Rússnesku erindrekarnir eru einnig sagðir hafa hótað því að hernema Kharkív og Sumí í Úkraínu.

Oliver Carroll, blaðamaður Economist sem vinnur í Úkraínu, hefur eftir heimildarmanni að Vladimír Medínskí, aðstoðarmaður Pútíns sem leiddi rússnesku sendinefndina, hafi sagt að Rússar vildu ekki stríð. Þeir væru þó tilbúnir til að berjast áfram, eins lengi og til þurfti. Hann mun hafa bent á að Rússar börðust við Svía í 21 ár á sínum tíma og spurði hversu lengi Úkraínumenn væru tilbúnir til að berjast.

Carroll hefur fengið aðra tilvitnun í Medínskí:

„Kannski munu einhverjir sem sitja hérna við borðið missa fleiri ástvini. Rússland er tilbúið til að berjast að eilífu.“

Medínskí segir samkvæmt rússneskum miðlum að Rússar séu tilbúnir til frekari viðræðna. Hann segir fundinn hfa verið jákvæðan og segir einnig að Úkraínumenn hafi farið fram á fund milli Selenskís og Pútíns.

Hann sagði einnig að sendinefndirnar hefðu samþykkt að senda hvorri annarri tillögur að drögum að samningi um mögulegt vopnahlé. Meðlimir beggja nefnda eru sagðir á leið frá Tyrklandi.

Ræddu við Pútín

Eftir fundinn munu Selenskí, Emmanuel Macron, Friedrich Martin, Keir Starmer og Donald Tusk, leiðtogar Úkraínu, Frakklands, Þýskalands, Bretlands og Póllands, hafa hringt í Donald Trump og rætt við hann í síma.

Fyrir fundinn kallaði Selenskí eftir hertum refsiaðgerðum gegn Rússum og sagði að aðgerðir þeirra og sendinefndin sýndi að Pútín hefði ekki áhuga á friði.

Selenskí segir að hann og hinir þjóðarleiðtogarnir fjórir hafi rætt fundinn í Istanbúl við Trump. Úkraínumenn séu tilbúna til þess að ná raunverulegum friði og mikilvægt sé að heimurinn taki harða afstöðu í málinu.

„Okkar afstaða - Ef Rússarnir hafna almennu vopnahléi og að binda endalok á drápin, verði harðar refsiaðgerðir að fylgja. Halda verður þrýstingi á Rússa þar til þeir eru tilbúnir til að binda enda á stríðið.“

Bæði Rússar og Úkraínumenn eru í raun að reyna að sýna Trump að þeir séu tilbúnir til friðarviðræðna en andstæðingar þeirra séu það ekki. Trump og hans ráðgjafar hafa gefið til kynna að þeir séu tilbúnir til að stíga frá samningaborðinu og hafa einnig gefið til kynna að þeir gætu hætt stuðningi við Úkraínu, sem yrði mikill sigur fyrir Pútín.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Rússar ítreka umfangsmiklar kröfur og Trump hótar að fara í fússi

Friðarviðleitni Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og erindreka hans virðist ekki ætla að bera árangur. Trump virðist þreyttur á að reyna að stilla til friðar og hefur hann sakað Úkraínumenn og Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, um að standa í vegi friðar með því að vilja ekki verða við umfangsmiklum kröfum Rússa og þá sérstaklega fyrir það að vilja ekki viðurkenna tilkall Rússa til Krímskaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×