Erlent

Tveir látnir og þrír al­var­lega særðir eftir á­rás í Manchester

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Manchester.
Manchester. Getty

Tveir látnir og þrír eru alvarlega særðir eftir hnífaárás við bænahús gyðinga við Middle Road í Crumpsall í Manchester í morgun. Boðað hefur verið til Cobra-fundar vegna atviksins og öryggisgæsla verður efld við önnur bænahús í dag.

Lögregla hefur staðfest að árásarmaðurinn var skotinn af lögregluþjónum og er einnig látinn. Borgarstjórinn Andy Burnham segir ógnina liðna hjá en hefur ráðlagt fólki að halda sig frá.

Mikill viðbúnaður er á svæðinu og sést hefur til sprengjusveitar á vettvangi.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum í Manchester var lögregla kölluð að Heaton Park Hewbrew Congretation Synagogue klukkan 09:31 að staðartíma. Sá sem tilkynnti sagði að hann hefði séð bifreið ekið að hópi fólks og að einn hefði verið stunginn.

Lögregla hefði skotið grunaðan árásarmann klukkan 09:38. Bráðaliðar hefðu mætt á svæðið klukkan 09:41. Í fyrstu voru fjórir sagðir hafa særst, annaðhvort eða bæði af völdum bifreiðarinnar og/eða vegna stungusára. Greint var frá því að öryggisvörður sé meðal særðu.

Lögregla hefur ítrekað skilaboð til almennings um að halda sig frá svæðinu á meðan aðgerðir standa yfir.

Forsætisráðherrann Keir Starmer hefur fordæmt árásina og þá sérstaklega að hún hafi átt sér stað í dag; á Yom Kippur, sem er heilagasti dagur gyðinga. Starmer er staddur á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn en mun snúa heim fyrr en ætlað var vegna árásarinnar.

Þá hefur verið greint frá því að boðað hafi verið til Cobra-fundar síðar í dag og að öryggigæsla verði efld við önnur bænahús gyðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×