Erlent

Skrifa ný drög að friðar­á­ætlun

Agnar Már Másson skrifar
Trump hafði kallað Úkraínumenn vanþakkláta þar sem þeir voru tvístígandi um friðaráætlun Bandaríkjamanna. Nú virðast ríkin aftur tala sama máli ef marka má sameiginlega yfirlýsingu þeirra.
Trump hafði kallað Úkraínumenn vanþakkláta þar sem þeir voru tvístígandi um friðaráætlun Bandaríkjamanna. Nú virðast ríkin aftur tala sama máli ef marka má sameiginlega yfirlýsingu þeirra. Getty/Alex Wong

Bandarískir og úkraínskir erindrekar hafa sett saman ný drög að friðaráætlun, samkvæmt yfirlýsingum þarlendra stjórnvalda. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að viðræður Úkraínumanna og Bandaríkjamanna í dag hafi skilað árangri. Aftur á móti væri nokkuð í land.

Sendinefndir Bandaríkjanna og Úkraínumanna funduðu í Genf í Sviss í dag um umdeildu friðaráætlunina sem Bandaríkjamenn lögðu fyrir úkraínska ráðamenn á föstudag. 

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn að fundur sendinefndanna hefði borið mikinn árangur. „Mjög góður dagur,“ sagði Rubio. Aftur á móti væri enn nokkuð í land.

Greint er frá því í sameiginlegri yfirlýsingu bandarískra og úkraínskra stjórnvalda að erindrekar hefðu á fundi sínum í dag sett saman uppfærð drög að friðaráætlun. 

Bandarískir erindrekar höfðu upprunalega kynnt 28 liða friðaráætlunina fyrir ráðamönnum í Kænugarði. Evrópskir ráðamenn, ekki síst úkraínskir, voru ekki alsáttir með áætlunina þar sem tillögurnar kváðu meðal annars á um að Úkraínumenn gæfu eftir landsvæði, gengju ekki í NATO og takmörkuðu herafla sinn. 

Yfirlýsing forsetaembættanna gefur í skyn að eitthvað af þessu sé nú breytt:

„[Báðar hliðar] ítrekuðu að hvers kyns framtíðarsamkomulag yrði að virða fullveldi Úkraínu að fullu og tryggja sjálfbæran og réttlátan frið. Í kjölfar viðræðnanna lögðu aðilar fram uppfærða og endurbætta friðaráætlun,“ segir í yfirlýsingunni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir á samfélagsmiðlum í gærkvöldi að Úkraínumenn væru vanþakklátir fyrir hjálp Bandaríkjamanna. Sérstaklega er tekið fram í yfirlýsingunni að úkraínska sendinefndin hafi ítrekað þakklæti sitt til Bandaríkjamanna „og persónulega Donalds J. Trump forseta fyrir óþreytandi viðleitni til að binda enda á stríðið og manntjónið.“

Enn fremur kemur fram að Úkraínumenn og Bandaríkjamenn hafi samþykkt að halda áfram vinnu við sameiginlegar tillögur á næstu dögum. Þeir myndu einnig vera í nánu sambandi við Evrópulön eftir því sem ferlinu vindur fram.

„Endanlegar ákvarðanir samkvæmt þessum ramma verða teknar af forsetum Úkraínu og Bandaríkjanna.“

Bandaríkjaforsetinn hafði gefið Úkraínumönnum frest til fimmtudags til þess að samþykkja drögin en nú segir Rubio að Trump sé „nokkuð sáttur“ við þann árangur sem fundurinn bar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×