Skoðun

Var rannsóknarskýrsla lífeyrissjóðanna tilbúin í vor?

Landssamtök lífeyrissjóða tilkynntu föstudaginn 20.08.2010 að ríkissáttasemjari hefði skipað rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna í landinu. Megin markmið nefndarinnar er að rannsaka fjárfestingastefnu, ákvarðanatöku og lagalegt umhverfi lífeyrissjóðanna.

Það hljómar mjög vel að skoða eigi starfsemi lífeyrissjóðanna. Það eitt að frumkvæðið komi frá Landssamtökunum vakti aftur á móti undrun mína þar sem ég trúi að lífeyrissjóðirnir láti ekki gera svona skýrslu nema að niðurstaðan sé þegar tryggð?

Aðkoma ríkissáttasemjara er ein og sér sérstök en hvernig kom Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, til sögunnar í huga sáttasemjara?

Hrafn er eflaust vel að sér í lögum. En var Hrafn Bragason, formaður nefndarinnar, ekki leiðbeinandi nýráðins starfsmanns nefndarinnar, Kristjáns Geirs Péturssonar, þegar Kristján skrifaði meistaraprófsritgerð er heitir „Lífeyrissjóðir sem hluthafar“ og kom út 4.5.2010?

Fram kemur á netslóðinni, http://skemman.is/item/view/1946/4925 að ritgerðin fjalli einmitt um áþekk atriði sem nú á að fara rannsaka, eins og fjárfestingastefnu, lagalegt umhverfi og stjórnkerfi sjóðanna. Þegar þannig er, að nú þegar er til skýrsla sem fjallar um sömu mál, unnin af sömu aðilum og sæti eiga í nefndinni þá vakna frekari spurningar um þau atriði er ríkissáttasemjari átti að hafa til grundvallar við skipun aðila í nefndina.

Eru þeir Hrafn og Kristján hæfir til verksins? Hvers vegna valdi ríkissáttasemjari Hrafn? Voru það kannski Landssamtök lífeyrissjóða sem hlutuðust til um hverjir völdust í nefndina? Hver eru raunveruleg tengsl þessara manna við Landssamtökin og lífeyrissjóðina? Hafa þessir ágætu menn ekki þegið greiðslur fyrir meistaraprófsritgerð Kristjáns frá Lífeyrissjóðunum?

Er það álit mitt að best sé að þessi nefnd ljúki nú þegar störfum og hið opinbera sýni almenningi í landinu þann sóma að hlutast til um að fram fari opinber rannsókn á Lífeyrissjóðunum þar sem ekkert verði dregið undan og engum hlíft.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×