Erlent

Fundu 22 ára gamalt lík með Google Maps

Samúel Karl Ólason skrifar
Bíllinn hefur verið sýnilegur á gervihnattarmyndum frá árinu 2007 en enginn hefur tekið eftir honum fyrr en í sumar.
Bíllinn hefur verið sýnilegur á gervihnattarmyndum frá árinu 2007 en enginn hefur tekið eftir honum fyrr en í sumar.
Lögreglan í Palm Beach í Flórída fann nýverið lík manns sem hvarf þann 7. nóvember 1997. Lík William Moldt fannst í tjörn við Moon Bay Circle í Wellington eftir að fyrrverandi eigandi húss þar nærri sá bíl í vatninu á Google Maps. Sá hafði samband við gamlan nágranna sinn sem flaug dróna yfir svæðið og sannreyndi að bíll væri í vatninu. Beinagrind Moldt fannst svo í bílnum.

Bíllinn fannst í ágúst, samkvæmt héraðsmiðlinum Local 10 News, en nú er búið að sannreyna að um lík Moldt er að ræða. Bíllinn hefur verið sýnilegur á gervihnattarmyndum frá árinu 2007 en enginn hefur tekið eftir honum fyrr en í sumar.



Þegar Moldt hvarf var verið að smíða húsin í hverfinu. Samkvæmt BBC telur lögreglan að Moldt hafi misst stjórn á bílnum og endað í tjörninni. Þar hafi bíllinn og Moldt legið síðan. Ekki er talið að glæpur hafi átt sér stað en talskona lögreglunnar sagði vatnið hafa afmáð öll möguleg ummerki glæps, svo það væri í raun ómögulegt að segja til um hvað hefði gerst.

„Það eina sem við vitum er að hann hvarf af yfirborði jarðar og nú er hann fundinn,“ sagði Theresa Barber.

Moldt hafði verið á skemmtistað áður en hann hvarf en vitni sögðu á sínum tíma að hann hefði ekki virst ölvaður. Hann hringdi í kærustu sína um klukkan hálf tíu og sagðist ætla að koma heim bráðum og er hann sagður hafa lagt af stað um klukkan ellefu. Hann sást ekki aftur.



Hér má sjá glitta í bílinn í vesturhluta tjarnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×