Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar er því haldið fram að New York Presbyterian sé einn af fremstu spítölum í heimi, ekki hvað síst í meðferð hjarta- og æðasjúkdóma. Hjartalokuprógramm NewYork-Presbyterian sé þá eitt það öflugasta í Bandaríkjunum.
Arnar mun í sínu nýja hlutverki leiða teymi hjartalækna og hjartaskurðlækna. Í tilkynningunni segir að í því muni felast að efla teymið, sérstaklega varðandi nýsköpun hjartaskurðaðgerða. Þá muni hann einnig þjálfa og leiðbeina næstu kynslóð lækna sem sérhæfa sig í meðferð hjartalokusjúkdóma.
Arnar útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands 1997 og stundaði sérnám í almennum skurðlækningum í Yale-háskólanum og hjartaskurðlækningum í Pennsylvania-háskólanum.
Lengst af hefur hann unnið sem hjartaskurðlæknir hjá Yale-New Haven-sjúkrahúsinu en hann hefur einnig starfað sem skurðlæknir á Landspítalanum árin 2012 til 2016. Hann var einnig yfirlæknir hjartaskurðlækninga hjá Yale-New Haven-sjúkrahúsinu í Connecticut frá 2016 til þessa árs.
Arnar er giftur Dr. Sigríði Benediktsdóttur, hagfræðingi, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrirlesara við Alþjóðaskóla Columbia-háskólans. Saman eiga þau þrjá syni sem eru búsettir í Bandaríkjunum.