Skoðun

Tíða­heil­brigði er lykil­at­riði í jafn­rétti kynjanna

Berit Mueller skrifar

Í dag, 28. maí, er alþjóðlegur dagur tíðahreinleitis og tíðaheilbrigðis. Dagurinn var tilnefndur fyrir rúmum 10 árum, sérstaklega til að vekja athygli á erfiðri stöðu kvenna út um allan heim sem eiga ekki aðgang að tíðavörum og hreinlætisaðstöðu. Þrátt fyrir að u.þ.b. helmingur mannkyns fari reglulega á blæðingar stóran hluta ævinnar eru blæðingar enn þá hjúpaðar skömm og feimni. Tíðaheilbrigði eru mannréttindi og enn fremur lykilatriði í jafnrétti kynjanna. Einstaklingar sem eru fæddir með leg og fara reglulega á blæðingar - hér á eftir kallaðir túrverur - sem geta ekki útvegað sér tíðavörur vegna aðgengis eða fjárskorts missa af menntun eða vinnu og eiga þar af leiðandi enn erfiðara með að koma sér í fjárhagslegt öryggi til að tryggja aðgengi að hreinlætisvörum og -aðstöðum.

Á Íslandi er staðan nokkuð góð, þökk sé framgöngu aktívista á síðustu árum sem skiluðu í sér lækkun virðisaukaskatts á tíðavörur og ókeypis aðgang að tíðavörum í mörgum skólum landsins. Blæðingaskömm fer lækkandi; ungar túrverur spyrja ókunnugan þjón eftir túrtappa, feður ræða um blæðingar við dæturnar, skömmin er mest sett til þeirra sem ætla að gera lítið úr blæðingum.

Hvað varðar hreinlætisaðstöðu eiga langflestar túrverur hér á landi óhindraðan aðgang að vatni og salernum þegar þær þurfa á því að halda. Þessu undanskilið eru allar túrverur sem vinna í framkvæmdastörfum utan dýra og deila einu færanlegu klósetti með mörgum einstaklingum fæddum með lim. Flest klósett eru ekki með rennandi vatn, nægilegt pláss til að skipta um tíðavörur og ruslafötu til að ganga frá einnota tíðavörum. Þetta þrennt finnst hins vegar á vinnustöðum þeirra fjölmargra túrvera sem vinna í umönnunar- og þjónustustörfum innandyra. Salernin eru hrein (enda sjá þær oftast sjálfar um þrifin) þannig að skipta um túrvörur og að gæta hreinlæti er ekki vandamálið. Erfitt er hins vegar að finna tímann til að sinna þörfum líkamans þar sem flest þessara starfa fela í sér mönnunarvanda og eftirlitsskyldu. Það er nóg flókið á öðrum dögum í tíðahring, en þegar blæðingar standa yfir fer meðaltúrveran oftar og örlítið lengur á salernið. Sumir lesendur hugsa kannski núna, það yrði ekki stórt mál að bíða aðeins lengur þangað til tíminn gefst, en það er ekki alltaf hægt. Það er ekki hægt að skreppa úr samverustund þegar hinir kennararnir eru í verðskuldaðri pásu þótt kennaratúrveran hafi misst úr sér túrtappa með hnerra. Það er afar óþægilegt að aðstoða aleina manneskju með litla hreyfigetu og finna samtímis hvernig bindið losnar í brókinni og hreyfist lengra frá klofinu við hvert skref. Í ísbúðinni á sólskinsdegi með biðröðina út á gangstétt virðist ekki koma rétti tíminn til að geta hvíslað á bak við afgreiðsluborðið „heyrðu, ég þarf að skreppa á klósettið, það lekur fram úr bikarnum“. Þess í stað á að brosa, veita góða þjónustu og hunsa eigin þarfir.

Tíðaheilbrigði er samt sem áður miklu meira en aðgengi að tíðavörum og hreinlætisaðstöðum. Það snýst enn fremur um þekkingu um blæðingar og eðlilegan tíðahring. Annars vegar er að ræða um fræðsla og rétta upplýsingagjöf til ungra túrvera, hins vegar er stór þáttur einnig vilja og áhuga til fræðilegra rannsókna um sjúkdóma í legi. Nýlega birtist áhugaverð rannsókn um bakteríusýkingar í leggöngum og árangur til lækningar þegar makinn með lim er sérstaklega meðhöndlaður. Það þarf fleiri rannsóknir og helst sem fyrst. Greiningartímínn fyrir t.d. endómetríósa er mörg ár og enn er ekki vitað nákvæmlega hvað orsakar endómetríósa og hvernig það er hægt að lækna hana. Þangað til það uppgötvast verða allt of margar túrverur upplifa reglulega sársaukafullar blæðingar. Margt annað um legið er einnig í huldu á meðan rangar fullyrðingar eru sífellt endurteknar. Eins og að egglosið er alltaf á 14. degi í tíðahringnum og að tíðahringurinn varir alltaf 28 daga. Egglosið verður þegar líkaminn er tilbúinn að huga að mögulegri þungun. Það getur verið á 14. degi tíðahrings, en líka á 11. degi eða 23. degi. Eðlilegt er að dagur egglosins breytist frá tíðahring til tíðahrings og þar með lengd tíðahrings. Eðlilegt er líka að langflestar túrverur víða um heim hafa ekkert val að fara á blæðingar, ekki meira val en þær hafa á skóstærð eða húðlit.

Blæðingar og tíðaheilbrigði snertir samfélagið sem heild, hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki. Þess vegna er 28. maí, alþjóðlegur dagur tíðahreinleitis og tíðaheilbrigðis, líka mikilvægur dagur til vitundarvakningar á Íslandi. Hér er þegar margt á réttri leið en það er líka hægt að gera ennþá betra. Góð skilaboð yrði að afnema alla skatta á tíðavörur. Fyrir utan það þarf einnig að tryggja að túrverur í jaðarsettum hópum, t.d. búandi á götu eða í úrræðum fyrir einstaklinga um alþjóðlega vernd, eigi auðveldan aðgang að tíðavörum og öruggum salernum. Til lengri tíma ætti að efla læknisfræðilegar og þverfaglegar rannsóknir á sviði tíðaheilbrigðis. Ekki síst má hver og einn lesandi velta fyrir sér hvaða fordóma hann ber með sér gagnvart blóði, gagnvart skapsveiflum hjá túrverum og gagnvart sjálfum sér um að þurfa að harka af sér á meðan blæðingar standa yfir.

Ég ætla að enda á fallegu ljóði eftir Ester Hilmarsdóttur því sama hversu leiðinlegt, erfitt og sársaukafullt það getur verið að fara á blæðingar, við skulum ekki gleyma hversu magnað líffæri legið er.

FÖGNUM (Ester Hilmarsdóttir)

Við skulum fagna þessum takti

sem hreinsar burt

og byggir upp á víxl

í sífelldri hringrás.


Þessu innra gangverki líkamans.

Þessari flóknu lífsklukku

sem ætti að fá færustu verkfræðinga heims

til að falla á hnéin.


Fögnum þessum hrynjanda.

Þessari stórkostlegu sinfóníu

sem kroppurinn semur

til þess að skapa líf.

Höfundur hefur mikinn áhuga á legi sem líffæri og sem áhrifavaldi í samfélagi.




Skoðun

Sjá meira


×