Mikið af þessu fólki heldur til í tjöldum, skólum eða á heimilum vina og ættingja og búa þau við skort á helstu nauðsynjum eins og matvælum og vatni.
Forsætisráðherrann sagði í gærkvöldi að hann myndi ekki hætta við, jafnvel þó hann sé undir miklum þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu. Hélt hann því fram á blaðamannafundi í gær að þeir sem vildu halda aftur af Ísrael væru í raun að krefjast þess að Ísraelar töpuðu stríðinu við Hamas.
„Það er satt að það er mikil andstaða erlendis en þetta er akkúrat augnablikið þar sem við verðum að segja að við ætlum ekki að vinna óklárað verk,“ sagði Netanjahú samkvæmt frétt New York Times.
Stríðið hófst eftir mannskæða árás Hamas og annarra á suðurhluta Ísrael þann 7. október í fyrra, þar sem Hamas-liðar tóku á þriðja hundrað gísla til Gasastrandarinnar. Stríðið hefur kostað þúsundir Palestínumanna lífið og hafa stórir hlutar Gasa verið lagðir í rúst.
Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem Hamas stýrir, segir að minnsta kosti 28 þúsund Palestínumenn liggja í valnum og er óttast að þúsundir til viðbótar liggi í rústum húsa á Gasaströndinni.
Erlendir ráðamenn og forsvarsmenn alþjóðlegra samtaka hafa varið við því að innrás í Rafah myndi hafa gífurlegar afleiðingar fyrir fólkið sem heldur til þar og gera stöðu Palestínumanna mun verri. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að Ísraelar leggi fram áætlun um brottflutning borgara frá Rafah, áður en innrás verður gerð.
Engin slík áætlun liggur fyrir.
Sjá einnig: Segir hamfarir myndu fylgja í kjölfar innrásar Ísraelsmanna
Netanjahú hélt því þó fram að Palestínumönnum yrði leyft að fara frá Rafah og það væri nægt pláss fyrir þau norður af borginni.
Ísraelar segja nauðsynlegt að gera innrás í Rafah því þar megi finna vígamenn og göng undir landamæri Gasa og Egyptalands sem þurfi að eyðileggja.
Þegar Netanjahú ræddi við blaðamenn í gærkvöldi fóru fram umfangsmikil mótmæli gegn ríkisstjórn hans í Tel Aviv. NYT segir þetta hafa verið stærstu mótmælin gegn ríkisstjórninni um mánaða skeið. Mótmælendur komu saman til að kalla eftir nýjum kosningum.

Kosið um vopnahléskröfu
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun líklega halda atkvæðagreiðslu um tillögu um að krefjast vopnahlés á þriðjudaginn. Tillaga að slíkri kröfu hefur verið lögð fram af erindrekum Alsír en erindrekar Bandaríkjanna hafa gefið í skyn að þeir muni beita neitunarvaldi, verði tillagan samþykkt.
Það segir Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna, gagnvart Sameinuðu þjóðunum, að sé vegna þess að tillagan gæti komið niður á viðkvæmum viðræðum milli Ísraela og leiðtoga Hamas um að binda enda á átökin, samkvæmt frétt Reuters.
Umræddar viðræður snúast í grunninn um vopnahlé í skiptum fyrir það að gíslum Hamas verði sleppt.
Netanjahú sagði þó í gær að litlar líkur væru á því að viðræður þessar myndu skila miklum árangri á næstunni. Hann sagði kröfur leiðtoga Hamas vera fáránlegar og að þeir hefðu ekki sýnt neinn vilja til að koma til móts við Ísraela.